Einar aftur í bann – ummælin ollu skaða

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, var í dag úrskurðaður í eins leiks bann eftir ummæli sín í fjölmiðlum eftir leik Stjörnunnar og Aftureldingar á dögunum. Er það annað bannið sem hann er úrskurðaður í eftir leikinn.

Hann hefur þegar tekið út bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk að líta í leiknum og stjórnaði ekki liði Stjörnunnar gegn Selfossi í síðustu viku. En stjórn HSÍ vísaði ummælum hans í fjölmiðlum til aganefndar sem nú hefur úrskurðað í málinu. Stjarnan tapaði leiknum 27:22 og krafðist Einar að fá afsökunarbeiðni frá dómurum leiksins, þeim Arnari Sigurjónssyni og Svavari Péturssyni.

 „Ég hvet menn til þess að finna einhver atriði þar sem hallar á Aftureldingu í leiknum. Frammistaða dómaranna var hörmung en er það tilviljun að ákvarðanir þeirra séu bara á annan veginn? Þetta er mjög sérstakt,“ sagði Einar við Vísi

„Aganefnd telur ljóst að með ummælum sínum vóg Einar að heiðarleika og hlutleysi dómara þó ekki hafi hann sagt það berum orðum. Ummæli sem höfð voru eftir honum á vefmiðlunum vísir.is og fimmeinn.is hljóta að teljast til skaða fyrir handknattleik í landinu,“ segir í úrskurði aganefndar. Einar verður því í banni gegn Haukum á fimmtudagskvöld.

Þá var Jóhann Karl Reynisson, leikmaður FH, úrskurðaður í eins leiks bann eftir að hafa hlotið útilokun með skýrslu fyrir brot í leik Hauka og FH á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert