Dramatískur sigur FH gegn Fram

Ágúst Birgisson línumaður FH-inga.
Ágúst Birgisson línumaður FH-inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH hafði betur gegn Fram, 29:28, í hörkuspennandi leik í áttundu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Það var Gísli Þorgeir Kristjánsson sem reyndist hetja FH, en hann skoraði sigurmark liðsins á lokaandartökum leiksins. 

Leikurinn var kaflaskiptur, en FH hóf leikinn af miklum krafti á meðan leikmenn Fram mættu vankaðir til leiks. Águst Elí Björgvinsson varði vel í marki FH í fyrri hálfleik og sóknarleikur heimamanna gekk nánast hnökralaust fyrir sig framan af leiknum. 

FH komst í 4:0 áður en Valdimar Sigurðsson kom Fram á blað, en Valdimar skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörk gestanna í leiknum. Þá fiskaði Valdimar vítakast í öðru marki Fram í leiknum. Fram náði að minnka mun FH sem varð mestur fimm mörk um miðbik fyrri hálfleiks í tvö mörk með góðri spilamennsku í síðari hluta fyrri hálfleiks. 

Fram spilaði síðan góða framliggjandi 3:2:1 vörn í upphafi síðari hálfleiks og komst yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Þorgeir Bjarki Davíðsson átti góðan leik í hægra horninu hjá Fram, en hann var markahæsti leikmaður liðsins með sex mörk og nýtti færi sín í horninu einkar vel. 

Það var síðan mikil spenna allt fram til enda leiksins. Leikmenn Fram fóru illa af ráði sínu í lokasóknum sínum og Birkir Fannar Bragason átti góða innkomu í mark FH á lokakafla leiksins. Þá voru FH-ingar klókari í aðgerðum sínum undir lok leiksins og fóru með eins marks sigur af hólmi.

Gísli Þorgeir skoraði eins og áður segir sigurmark FH í síðustu sókn liðsins. Gísli Þorgeir stjórnaði sóknarleik FH af miklum myndarbrag, en hann tók af skarið þegar sóknarleikurinn hikstaði og var markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk. 

Þar að auki skapaði Gísli Þorgeir þó nokkur mörk fyrir samherja sína með stoðsendingum sínum. Það fór því vel á því að Gísli Þorgeir væri í sviðsljósinu á ögurstundu.  

FH er í öðru sæti deildarinnar með níu stig eftir þennan sigur og er fimm stigum á eftir Aftureldingu sem trónir á toppi deildarinnar. Fram er hins vegar í áttunda sæti deildarinnar með sjö stig, en deildin er afar jöfn og einungis tvö stig sem skilja að FH og Fram.  

FH 29:28 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert