Fyrsti leikur Árna í hálft ár: Virkilega ánægður

Árni Steinn Steinþórsson í leik með Haukum þar sem hann …
Árni Steinn Steinþórsson í leik með Haukum þar sem hann lék áður en hann hélt til Danmerkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Steinn Steinþórsson sneri aftur á handboltavöllinn í kvöld í fyrsta sinn í hálft ár þegar Selfyssingar unnu hádramatískan sigur á Gróttu, 29:28, í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Árni Steinn kom til Selfyssinga frá SönderjyskE í Danmörku í vor eftir að hafa farið í aðgerð á öxl. Ekki var reiknað með honum til baka fyrr en um áramót eða svo, en endurhæfingin hefur gengið framar vonum.

Sjá frétt mbl.is: Fjórða tap Gróttu í röð í ótrú­legri drama­tík

„Ég er kominn aðeins fyrr á ferðina en búist var við, en ég er samt ekki orðinn alveg 100% ennþá eins og kannski sést. Það vantar bæði upp á leikform og skotin, en þetta er eiginlega bara partur af endurhæfingunni; að koma aðeins inn í leiki. Ég átti reyndar bara að spila einhverjar tíu mínútur í dag, en það varð aðeins meira,“ sagði Árni Steinn við mbl.is eftir leik en hann skoraði tvö marka Selfoss í leiknum sem var æsispennandi.

„Þetta var bara frábært; frábær stemning í húsinu og spennandi leikur. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu og ég er virkilega ánægður að komast aðeins í slaginn,“ sagði Árni og reiknar með að spila sig hægt og bítandi betur inn í leiki Selfyssinga á meðan hann nær sér á strik eftir meiðslin.

„Á meðan að öxlin þolir og á meðan ég get hjálpað þá mun ég taka þátt. Okkur hefur vantað breidd í vörninni svo ég kom aðeins inn í það. Ég held að þetta sé bara góður partur af endurhæfingunni,“ sagði Árni Steinn.

 Athygli vakti að nokkrum mínútum fyrir leik virtist sem rúta af stuðningsmönnum Selfoss hafi lagt fyrir utan og hersingin streymdi inn í húsið með trommuslætti og hrópum. Það gaf liðinu mikinn kraft.

„Algjörlega. Maður heyrði söng og trall rétt áður en við byrjuðum að spila og þetta er mjög dyggur hópur stuðningsmanna. Það er eiginlega bara magnað hvað margir eru að koma yfir heiðina og hingað. Svona miðað við hvað virðist vera langt í hina áttina þegar við erum á heimavelli,“ sagði Árni Steinn.

Geðshræring í lokin

Lokamínúturnar í leiknum voru hádramatískar. Grótta fékk vítakast þegar lokaflautið gall og Finnur Ingi Stefánsson, sem hafði skorað úr öllum átta vítaköstum sínum í leiknum fyrir Gróttu, þrumaði í þverslá og Selfoss hrósaði sigri. Hvað fór í gegnum hausinn á Árna á þessum andartökum?

„Það var smá hluti af mér sem trúði því að hann myndi klikka, ég veit ekki af hverju. En maður gleymir sér einhvern veginn í augnablikinu og svo var það bara geðshræring í lokin. Þetta var bara algjör snilld og sérstaklega á móti svona góðu liði eins og Gróttu,“ sagði Árni.

Sjá frétt mbl.is: „Einhver ógeðsleg óheppni“

Við vorum búnir að vera með leikinn í okkar höndum lengst af og við hefðum orðið svekktir ef við hefðum misst stigin. Vorum þremur yfir þegar þrjár mínútur voru eftir, en svo gerði ég það sem á ekki að gera; missi boltann og fæ hraðaupphlaup,“ sagði Árni sem slapp þó með skrekkinn.

Selfoss er með átta stig að loknum fyrstu átta umferðunum. Hvað finnst Árna um þessa byrjun nýliðana?

Við erum að spila mjög vel í þeim leikjum sem við ættum kannski ekki að vera að fá stig út úr, en höfum klikkað í þeim leikjum sem við eigum að vera í meiri séns. Svo maður er eiginlega hundfúll að vera ekki með fleiri stig. Þó fyrir mótið hefði maður alveg tekið þessi stig,“ sagði Árni Steinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert