Er að skoða mín mál

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

„Við eigum fund saman í byrjun nóvember og þá munum við sjá hvernig landið liggur og hver staða mála er. Ég er bara að skoða mín mál og þeir örugglega sín og þannig er þetta þegar verið er að semja. Eftir þennan fund ættu málin að skýrast hvað framhaldið varðar en á svona fundi getur í rauninni allt gerst. En það er alveg ljóst að niðurstaða þarf að liggja fyrir fljótlega með framtíðina,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, við Morgunblaðið í gær.

Samningur Guðmundar við danska handknattleikssambandið rennur út í 1. júlí á næsta ári, en Guðmundur hefur stýrt danska landsliðinu frá árinu 2014 og undir stjórn hans urðu Danir ólympíumeistarar í fyrsta sinn á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.

,,Ég hef áhuga á því að halda áfram en engu að síður er ýmislegt sem maður þarf að skoða. Ég geri mér vel grein fyrir því að ég er í mjög krefjandi starfi og eins og flestir vita hefur ýmislegt gengið á,“ sagði Guðmundur Þórður.

Félög og forráðamenn handknattleikssambanda hafa eðlilega horft til Guðmundar með það fyrir augum að fá hann til starfa en sjálfur vill hann ekki ræða mikið um það. ,,Já, maður skyldi ætla að einhverjir sýndu manni áhuga en það hefur ekkert reynt á það. Á meðan ég er þjálfari danska landsliðsins einblíni ég bara á það starf,“ sagði Guðmundur.

Sjá allt viðtalið við Guðmund í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert