Fékk samviskubit að vera í burtu

Guðmundur og Óskar Bjarni Óskarsson leggja á ráðin á sínum …
Guðmundur og Óskar Bjarni Óskarsson leggja á ráðin á sínum tíma. mbl.is/Golli

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari bikarmeistara Vals og aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, er ánægður með að vera kominn aftur í þjálfarateymi Íslands og nýtur þess að hafa mikið að gera.

Óskar Bjarni var aðstoðarmaður Guðmundar Guðmundssonar á sínum tíma og var meðal annars með silfurliðið á Ólympíuleikunum í Peking. Hann var hins vegar ekki í þjálfarateymi Arons Kristjánssonar en kom aftur inn í liðið í vor þegar Geir Sveinsson tók við.

„Þetta er að sjálfsögðu krefjandi, en ég hef gaman af áskoruninni. Þetta krefur þig í að fylgjast meira með, bæði hér heima og erlendis. Það er bara ánægjulegt,“ segir Óskar Bjarni á vef Evrópska handknattleikssambandsins. Hann segir að eitthvað hafi vantað síðustu fjögur árin þegar hann var utan þjálfarateymisins.

„Ég fann þegar ég var bara með Val síðustu fjögur árin að ég fékk smá samviskubit í janúar að vera í burtu á stórmótunum. En ég held að það sé gott bæði fyrir mig og strákana hversu vel ég þarf að fylgjast með á öllum sviðum og ég er bara glaður að vera kominn aftur í hasarinn,“ segir Óskar Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert