„Þetta er eiginlega bara orðið grín“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

ÍBV tapaði sínum fyrstu stigum á heimavelli gegn Haukum í dag í 6. umferð Olís-deildar kvenna. Liðið virkaði virkilega slakt í dag gegn góðu liði Hauka. Marga leikmenn vantar enn í ÍBV liðið og ekki styrkist hópurinn við það. Hrafnhildur Ósk Skúladóttir var því ekkert í allt of góðu skapi þegar ég spjallaði við hana eftir leik.

„Þetta hefði hæglega getað verið tólf marka tap, fimm er kannski ekkert hræðilegt í lokin. Þetta er skelfilegur leikur af okkar hálfu og ég þarf að horfa á þennan leik aftur en við klúðrum endalaust af einhverjum dauðafærum. Við fórum mjög illa með þau, var hún með 70% markvörslu á móti okkur?“ sagði Hrafnhildur um Elínu Jónu Þorsteinsdóttur sem lokaði marki Hauka.

Ég tjáði Hrafnhildi að hún hefði varið 23 skot, Hrafnhildur var hissa á því.

„Ég hefði haldið að hún hefði verið með meira, hún fer illa með okkur og svo verður þetta þynnra og þynnra hjá okkur. Við missum fleiri og fleiri leikmenn og þetta verður erfiðara og erfiðara. Þetta er brekka núna.“

Karólína tognuð aftan í læri

Karólína Bæhrenz Lárudóttir var ekki með í dag en hún hefur verið ein af burðarásum liðsins á tímabilinu, hvað er að henni?

„Hún er tognuð aftan í læri og við hefðum getað tekið smá séns að spila með hana en það hefði verið heimskulegt. Þá væri hætta á því að hún yrði ekkert meira með fyrir áramót þannig að við ákváðum að vera skynsamar og láta hana hvíla þennan leik, vonandi verður hún þá með næst.“

Ásta Björt Júlíusdóttir var heldur ekki með liðinu í dag og Sandra Dís Sigurðardóttir spilaði bara fyrstu mínúturnar. Þarna eru tvær aðrar örvhentar auk Karólínu og Drífu Þorvaldsdóttur sem gátu ekki spilað í dag. Liðið er frekar þunnskipað hægra megin.

„Ásta er meidd í ökkla síðan í gær, síðan fær Sandra höfuðhögg og var óglatt, þetta er eiginlega bara orðið grín.“

Vill Hrafnhildur meina að það sé mikill munur á liðunum í dag?

„Eins og staðan er akkúrat í dag eru Haukar klárlega með betri mannskap á eyjunni. Ef ég fæ alla mína leikmenn til baka þá eru þær ekkert með sterkara lið en ég.“

Aðspurð út í meiðsli leikmannanna hafði Hrafnhildur þetta að segja.

„Það er langt í Drífu en ég er að vonast eftir Gretu (Kavaliuskaite) í nóvember og eins og ég segi þá verður Karólína vonandi komin í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert