Framkoma Hrafnhildar íþróttinni til sóma

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV. Eva Björk Ægisdóttir

Haukar sóttu tvö stig til Vestmannaeyja í sjöttu umferð Olís-deildar kvenna í dag. Liðið vann fimm marka sigur 21:26 á vængbrotnu liði ÍBV þar sem marga lykilleikmenn vantaði. Óskar Ármannsson þjálfari Hauka var ánægður með sitt lið en hrósaði einnig kollega sínum á hliðarlínunni í hástert.

„Ég er nokkuð sáttur með leikinn, þetta var gott „liðseffort.“ Allir leikmennirnir í liðinu voru að leggja sitt að mörkum. Ég var ánægður með einbeitinguna sem við héldum út alveg í 60 mínútur. Ef þú sofnar eitt augnablik á móti þessu Eyjaliði sem að vantar mikilvæga leikmenn þá auðvitað getur leikurinn snúist. Ég er rosa ánægður með þessi stig.“

Dómararnir virtust fara í taugarnar á Óskari í fyrri hálfleik og var hann í raun mikið að kvarta í þeim, fannst honum þeir eiga lélegan leik?

„Nei, nei. Maður er bara með í þessum leik, handboltinn er bara þannig. Maður sækir þetta gula spjald, það eru alltaf einhver atriði, þetta er hluti af leiknum og maður reynir að vera rólegur og einbeita sér að leiknum.“

Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti magnaðan leik í marki Hauka og varði 23 skot, Óskar hlýtur að vera ánægður með hennar framlag.

„Við vorum að spila gríðarlega sterka vörn, við vorum að þétta á Ester og Söndru og þar var mikil hjálp í því. Þegar skotin sluppu í gegn þá gat hún tekið þessa bolta þannig að samvinnan var góð þarna á milli og skilaði þéttri vörn og markvörslu.“

Elín varði mikið af dauðafærum og hélt Telmu Amado í núll mörkum allan leikinn á línunni. Elín varði að minnsta kosti fimm sinnum frá Telmu sem átti erfitt uppdráttar.

„Það er markmaðurinn sem má eiga það, það er þetta extra sem hún tekur. Þarna safnast saman 23 boltar, það er auðvitað líka gott í svona leik að vera með sterka markvörslu.“

Meðvituð um okkar getu

Haukar hafa unnið fimm af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni, hvernig finnst Óskari byrjunin hafa verið?

„Þetta er kannski eitthvað sem umhverfið hefur ekki búist við. Við erum meðvituð um okkar getu og förum ekkert fram úr okkur í því, hver leikur er upp á líf og dauða.“

Ramune Pekarskyte spilaði fyrsta leik sinn á tímabilinu í dag, það hlýtur að vera mikilvægt að fá svona leikmann inn í lið sem hefur verið að standa sig vel.

„Hún styrkir þetta og bætir við liðið. Ég vona að spiltíminn lengist en þar erum við ekkert að fara fram úr okkur, hún kemur inn í það sem hún treystir sér í og það gerist skref fyrir skref.“

Ramune var eitthvað að fikta við töflu á bekknum til þess að setja upp sóknarleik liðsins, hjálpar hún þjálfurum liðsins mikið?

„Hún er aðstoðarþjálfari þannig að hún hjálpar mikið þar. Þetta er kreatívur leikmaður þannig að það er mikil hjálp þar.“

„Mig langar einnig að minnast á gríðarlega íþróttamannslega framkomu hjá henni Hrafnhildi

Eitt skondið atvik gerðist í leiknum þegar Guðbjörg Guðmannsdóttir meiddist í liði ÍBV. Sjúkraþjálfari ÍBV var ekki á svæðinu og bað Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, sjúkraþjálfara Hauka að fara inn á völlinn að hlúa að Guðbjörgu. Dómararnir höfðu ekki „opnað“ völlinn og fengu Haukar því tveggja mínútna brottvísun. Óskar vildi koma þökkum til Hrafnhildar.

„Mig langar einnig að minnast á gríðarlega íþróttamannslega framkomu hjá henni Hrafnhildi. Sjúkraþjálfarinn okkar hleypur inn á völlinn af því að hún bað um það. Þá var ekki búið að opna völlinn og það kostar okkur tvær mínútur. Hún brást ótrúlega íþróttamannslega við, með því að taka einn leikmann úr sínu liði af velli. Ég vil þakka henni fyrir mikla riddaramennsku og íþróttamannslega framkomu, þetta er íþróttinni til sæmdar þegar maður sér svona,“ sagði Óskar að lokum um atvikið góða.

Óskar Ármannsson.
Óskar Ármannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert