Björgvin Páll í raðir Hauka

Björgvin Páll Gústavsson spilar í Olís-deildinni á næstu leiktíð.
Björgvin Páll Gústavsson spilar í Olís-deildinni á næstu leiktíð. Ljósmynd/Foto Olimpik

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson hefur skrifað undir samning til tveggja ára við Íslandsmeistara Hauka í handbolta.

Samningurinn tekur gildi í júlí á næsta ári og mun Björgvin Páll, sem er 31 árs gamall, þá snúa aftur til Íslands eftir níu ár sem atvinnumaður í handbolta. Hann mun því standa í marki Hauka frá og með næsta hausti.

Björgvin Páll er nú á fjórða tímabili sínu með Bergischer í þýsku 1. deildinni en var áður hjá Bittenfeld, Kadetten Schaffhausen og Magdeburg.

Ásamt því að spila með Haukum verður Björgvin Páll aðstoðarþjálfari liðsins og markmannsþjálfari hjá félaginu. Þá mun hann starfa við unglingaakademíu Hauka og koma að markaðsmálum hjá Haukum, en í fréttatilkynningu Hauka segir að Björgvin muni markaðssetja félagið innan sem utan vallar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert