„Mig langar að fara til Íslands“

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. AFP

Eins og mbl.is greindi fyrst frá í morgun hefur landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson samið við Hauka og mun því snúa heim úr atvinnumennsku næsta sumar eftir níu ár.

„Þetta kemur kannski mörgum á óvart að ég skuli á þessum tímapunkti á ferlinum taka þennan slag að koma heim og leika á Íslandi en ástæðan fyrir því er einföld. Mig langar það,“ skrifar Björgvin Páll í opinni færslu á Facebook-síðu sinni. Hann segir ákvörðunina algjörlega tekna á hans eigin forsendum.

„Ég spurði sjálfan mig að einfaldri spurningu „Hvað myndir þú vilja gera ef að peningar skiptu engu máli?” Alltaf komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langar að fara til Íslands, mig langar að njóta þess meira að spila handbolta, mig langar að hjálpa íslenskum markmönnum að verða betri, mig langar að æfa á mínum forsendum og fyrir mig,“ skrifar Björgvin Páll.

Gaf frá sér spennandi kosti

„Tímasetningin á ákvörðuninni er frekar óvenjuleg þar sem að tímabilið er nýbyrjað í Þýskalandi miklar hreyfingar á markmannsmarkaðnum í Evrópu næstu 5-6 mánuðina. Ég var hinsvegar það sáttur með þessa ákvörðun að ég var tilbúinn að taka hana strax og gaf frá mér ýmsa nokkuð spennandi kosti, sem ég hefði ekki trúað fyrir stuttu síðan að ég myndi gefa frá mér.“

Björgvin segir að framtíð sín í landsliðinu hafi verið síðasta hindrunin í þeirri ákvörðun að koma heim.

„Ég tel að til þess að halda áfram að bæta mig þurfi ég að að gera eitthvað algerlega nýtt og gera hlutina á mínum forsendum og þannig þokast nær stærsta handboltamarkmiðinu mínu, að vinna til gullverðlauna með landsliðinu áður en ég legg skóna á hilluna (sem verður líklega eftir um 10 ár). En ef að mér tekst það ekki þá kom ég allavega heim á tímapunkti þar sem ég hef aldrei verið betri og get reynt að búa til fleiri góða íslenska markmenn sem að geta tekið við keflinu. Yrði alveg jafn glaður að sjá landsliðið ná í þessi gullverðlaun þegar ég sit uppi í sófa 60 ára gamall fyrir framan sjónvarpið,“ skrifar Björgvin Páll.

Færsluna hans í heild má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert