Róbert og Vignir ekki valdir

Óskar Bjarni Óskarsson og Geir Sveinsson.
Óskar Bjarni Óskarsson og Geir Sveinsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, valdi ekki línumennina Róbert Gunnarsson og Vigni Svavarsson, í A-landsliðið að þessu sinni. Geir staðfesti þetta við mbl.is en leikmannahópurinn sem mætir Tékklandi og Úkraínu í undankeppni EM 2018 var sendur fjölmiðlum í dag. 

Fjórir þrautreyndir landsliðsmenn sem verið hafa í landsliðinu um langt skeið eru ekki í hópnum að þessu sinni. Áður höfðu þeir Alexander Petersson og Snorri Steinn Guðjónsson staðfest við mbl.is að þeir gefa ekki lengur kost á sér í landsliðið eftir langan feril.

Geir segist eingöngu hafa velt þessum leikjum fyrir sér hvað varðar Róbert og Vigni. Geir ræddi við þá báða og tilkynnti þeim um ákvörðun sína og segir að sú staða geti hæglega komið upp að þeir komi aftur inn í landsliðshópinn. 

„Ég hef verið í sambandi við þá Róbert og Vigni og átti við þá gott spjall. Ég tilkynnti þeim að ég myndi ekki taka þá með í þetta verkefni. Ég útskýrði fyrir þeim mína hugmyndafræði varðandi það. Þetta snýst einfaldlega bara um þetta skipti og hefur ekki nánari þýðingu fyrir framhaldið. Þeir tóku því karlmannlega þótt þetta séu drengir sem vilja vera með og þekkja ekkert annað en að berjast. Þetta er einfaldlega niðurstaðan í þetta skiptið. Frá mínum bæjardyrum séð eru þeir ennþá inni í myndinni og Róbert er til dæmis í 28 manna hóp sem ég tilkynnti til Evrópska handknattleikssambandsins,“ sagði Geir sem þýðir að Róbert er þá einn þeirra sem hægt er að kalla til vegna leikjanna gegn Tékklandi og Úkraínu ef á þarf að halda.

Landsliðshópurinn

Einnig er rætt við Geir um landsliðshópinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert