„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir“

Guðni Ingvarsson í vörninni gegn FH á dögunum.
Guðni Ingvarsson í vörninni gegn FH á dögunum. mbl.is/Ofeigur Lydsson

Guðni Ingvarsson átti frábæran leik fyrir Selfoss þegar liðið sigraði ÍBV 38:32 á heimavelli í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Guðni var að vonum léttur í leikslok þegar mbl.is spjallaði við hann í leikslok.

Sjá frétt mbl.is: Selfoss skoraði 38 mörk gegn ÍBV

„Þetta var auðvitað frábær sigur. Það situr reyndar aðeins í mér að hafa misst niður forskotið í seinni hálfleik, en ef það er eitthvað lið sem getur unnið upp svona mun þá er það ÍBV. Ég þekki það af eigin raun eftir að hafa spilað með þeim, en mér finnst ótrúlega sterkt hjá okkur að koma til baka aftur og klára þetta með sex marka mun. Mínus í kladdann hjá okkur að missa niður forskotið en stór plús að vinna,“ sagði Guðni.

Þetta var annar sigur Selfoss á ÍBV í röð en Selfyssingar lögðu Eyjamenn í bikarkeppninni síðastliðinn sunnudag eftir framlengdan leik.
„Ég hélt að þeir myndu svara fyrir bikartapið af meiri krafti en þetta var einhvern veginn ótrúlega „soft“ fyrri hálfleikur hjá báðum liðum. Þeir komu grimmir inn í seinni hálfleik eftir að við komumst níu mörkum yfir og þá fór þetta að líkjast bikarleiknum. Annars var þetta allt öðruvísi leikur hér í kvöld.“

Leikurinn var mjög sveiflukenndur en Guðni segir að það sé oft þannig í leikjum gegn ÍBV.

„Í fyrri hálfleik voru allar flóðgáttir opnar í vörninni hjá þeim og svo ná þeir að loka algjörlega á okkur á kafla í seinni hálfleik. Þá skjóta Teddi [Theodór Sigurbjörnsson] og þessir dúddar mann í kaf. Mér fannst Teddi reyndar taka leikinn yfir þarna á tímabili,“ sagði Guðni.

Það er rétt hjá honum. Theodór skoraði 13/4 mörk í leiknum, þar af 10 í seinni hálfleik, en Guðni var jafn afkastamikill, skoraði 13 mörk og lét vel til sín taka í vörninni. Einar Sverrisson skoraði 8 mörk og átti hverja stoðsendinguna af annarri inn á Guðna. Þeir reyndust sínum gömlu félögum erfiðir.

„Já, boltinn var að detta til mín núna. Það var mjög skemmtilegt fyrir mig og Einar að spila vel á móti gamla liðinu. Við eigum sterkar taugar til ÍBV þannig að þetta var ekki leiðinlegt. Þetta eru skemmtilegustu leikirnir og það var ótrúlega mögnuð og stemmning hérna í kvöld. Við erum að spila deildarleik á fimmtudegi en mér fannst þetta vera eins og leikur í úrslitakeppninni. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað stuðningurinn er mikilvægur fyrir okkur. Það skiptir öllu máli að hafa þessa frábæru stemmningu og maður fírast allur upp,“ sagði Guðni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert