„Því miður fór lokaskotið í klukkuna“

Andri Snær Stefánsson
Andri Snær Stefánsson Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Það var töluverður völlur á fyrirliða Akureyringa eftir að hans lið hafði náð fyrsta stiginu á heimavelli í vetur eftir jafntefli við FH í Olís-deild karla í handknattleik. Leikurinn var lengstum í höndum Hafnfirðinga en með mikilli seiglu og baráttu náðu heimamenn að kreista út stig í leik sem endaði 24:24.

Sjá frétt mbl.is: Háspennuleikur Akureyrar og FH

Þrátt fyrir að hafa klúðrað tveimur vítum var gott hljóð í Andra Snæ Stefánssyni og telur hann að liðið fái nú byr í seglin. „Þetta var gott stig. Við verðum að líta á það þannig enda hafa þau ekki verið mörg í vetur. Þetta er bara byrjunin á einhverju góðu. Við höfðum mikið fyrir því að ná þessu stigi en síðasta sóknin okkar hefði mátt skila marki og sigri. Sú sókn var voðalega slöpp hjá okkur.

Við vorum búnir að spila síðustu sóknirnar á undan nokkuð smurt og óhikað svo við hefðum mátt gera betur. Það vantaði bara einhvern til að taka af skarið. Því miður fór svo lokaskotið hjá Stropus í klukkuna. Auðvitað hefði verið frábært að klára leikinn með sigri en þetta var svakalegur karakter sem við sýndum því við vorum að elta allan tímann. Við getum verið með kassann uppi og byggjum bara á þessu.“

Akureyringar hafa verið mikið meiddir á tímabilinu og í kvöld meiddist Brynjar Hólm Grétarsson eftir tíu mínútur. Kristján Orri spilaði nánast ekkert og Sigþór Árni byrjaði á bekknum.

„Við erum margir sem þarf að tjasla saman og við erum í smá vandræðum. Hins vegar eru aðrir að koma sterkir inn í þetta og þeir sem komu af bekknum í dag voru virkilega góðir. Við erum með meiri breidd en flestir halda og svo eru Litháarnir alltaf að verða öflugri. Þeir voru mjög sterkir í kvöld. Við sýndum mikla liðsheild í kvöld og ég er rosalega stoltur af liðinu og karakternum hjá okkur. Það er haugur af stigum í boði og við eigum bara eftir að verða betri,“ sagði fyrirliðinn að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert