Tveggja marka tap í Sumy

Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta.
Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta. mbl.is/Golli

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tapaði fyrir landsliði Úkraínu, 27:25, í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Sumy í Úkraínu í dag. Úkraínumenn voru lengst af með yfirhöndina í leiknum. Íslenska liðið komst aldrei yfir í síðari hálfleik. Þar með er staðan jöfn í riðlinum eftir tvær umferðir, Ísland, Úkraína, Tékkland og Makedóna hafa tvö stig hvert.

Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13. 

Úkraínumenn byrjuðu leikinn betur og voru með fjögurra marka forskot eftir rúmar 11 mínútur, 7:3. Íslenska liðinu tókst að komast inn í leikinn með betri sóknarleik þegar á leið gegn framliggjandi vörn Úkraínumanna. Ísland var tvisvar yfir í fyrri hálfleik, 9:8, og 13:12.

Úkraínumenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti. Þeir sóttu mjög hratt á íslenska liðið hvenær sem tækifæri gafst. Mest náðu þeir þriggja marka forskoti, 22:19, um miðjan síðari hállfeik. Íslandi tókst að jafna metin, 22:22, en tókst ekki að fylgja þeim góða kafla eftir. Úkraínumenn náðu aftur frumkvæðinu. Á síðustu fimm til sex mínútum leiksins fékk íslenska liðið nokkur tækifæri til þess að jafna metin og jafnvel komast yfir en það tókst ekki. Einnig vaknaði Igor Chupryna, markvörður Úkraínumanna, til lífsins eftir að hafa verið daufur.

Sóknarleikurinn var ekki eins og best verður á kosið. Hraðinn var ekki mikill og talsvert mæddi á sömu leikmönnunum, m.a. Aroni Pálmarssyni og Rúnari Kárasyni. Þá fóru bæði vítaköst íslenska liðsins í súginn, annað undir lokin í stöðunni, 25:24, þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka.

Varnarleikurinn var yfir höfuð góður og markvarslan þokkaleg.

Aron Pálmarsson skoraði sex mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. Rúnar Kárason skoraði fimm mörk og Guðjón Valur Sigurðsson fjögur. 

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Úkraína 27:25 Ísland opna loka
60. mín. Aron Pálmarsson (Ísland) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert