Guðmundur svekktur út í Dani

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, sem mun láta af störfum sem landsliðsþjálfari Dana í handknattleik, segir að hann hafi aldrei fengið nægilega viðurkenningu fyrir það að stýra Dönum til sigurs á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.

Sjá frétt mbl.is: Guðmundur hættir með Dani

„Ég hef saknað þess að fá viðurkenningu á mínum störfum. Það hefur verið of mikill fókus á neikvæðum atriðum eftir Ólympíuleikana,“ sagði Guðmundur við danska miðilinn TV2.

„Það hefur nánast verið óþægilegt fyrir mig að heyra sumt af því sem hefur verið skrifað og ég hef velt því fyrir mér hvað sé satt og hvað ekki. Í staðinn fyrir að fá heiður fyrir úrslitin. Það hefur svolítið gleymst hversu mögnuð og stórkostleg úrslit þetta voru,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. AFP

Munur á viðbrögðum Íslendinga

Guðmundur stýrði Íslendingum einnig í úrslitaleik Ólympíuleika, en tapaði. Hann segir hins vegar að hann hafi fengið allt önnur viðbrögð við silfrinu frá Íslendingum.

„Munurinn liggur í viðurkenningunni og virðingunni fyrir úrslitunum. Það var mikill munur á þessum tveimur atburðum fyrir mig,“ sagði Guðmundur og talar um viðbrögðin í Danmörku. „Ég held að fólk geti lært af þessu, það voru allir að einblína á það neikvæða í staðinn fyrir að hugsa um hversu stórkostlegt afrek þetta var.“

Eins og frægt er orðið fundaði Ulrik Wilbek, þáverandi íþróttastjóri danska sambandsins, með leikmönnum án Guðmundar í Ríó í sumar og virtist hafa reynt að grafa undan honum. Wilbek sagði að lokum af sér en Guðmundur segir að þetta hafi haft áhrif á ákvörðun sína að hætta.

„Ég hef upplifað margt, meira að segja á Ólympíuleikunum, sem ollu mér vonbrigðum. Það var ýmislegt sem gerðist bak við tjöldin sem hafði áhrif á mig. Ég vil ekki segja að það sé eina ástæðan fyrir því að ég hætti, en það er ein af þeim,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta …
Guðmundur Guðmundsson fagnar eftir að hafa tryggt Dönum sitt fyrsta ólympíugull í karlaflokki í handknattleik. AFP

Ekki ákvörðun tekin á einum degi

Guðmundur segir að það hafi verið erfið ákvörðun að ákveða að hætta.

„Þetta er ekki eitthvað sem ég ákvað á einum degi. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um í margar vikur og skoðað bæði kosti og galla. Ég hef reynt að horfa til þess hvað ég vil í framtíðinni og tel mig hafa tekið rétta ákvörðun,“ sagði Guðmundur.

Hafðirðu stuðning danska handknattleikssambandsins til þess að halda áfram?

„Ég veit það ekki. Það er erfitt fyrir mig að segja til um það. Það er þeirra að svara því,“ sagði Guðmundur, sem mun láta af störfum hinn 1. júlí næstkomandi þegar samningur hans rennur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert