Talið að hásinin sé slitin

Karolis Stropus er að öllum líkindum með slitna aðra hásinina.
Karolis Stropus er að öllum líkindum með slitna aðra hásinina. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skjótt skipast veður í lofti við mat á meiðslum þeim sem Karolis Stropus, skytta handknattleiksliðs Akureyrar, varð fyrir í kappleik liðsins við Aftureldingu í 13. umferð Olís-deildar í Mosfellsbæ á laugardaginn. Síðdegis í gær var talið að vinstri hásinin væri trosnuð. Nú virðist annað vera komið í ljós.

„Nú er talið að hásinin sé alveg slitin,“ sagði Sverre í samtali við mbl.is seint í gærkvöldi. Sé svo þá verður Stropus ekki meira með Akureyrarliðinu á þessari leiktíð. Að sögn Sverres gera bólgur læknum erfitt fyrir að meta fullkomlega hvort hásinin er slitin eða trosnuð. Þar af leiðir gætu fáeinir dagar liðið þangað til endanleg niðurstaða fæst eða þar til bólgan við meinið minnkar.

Fyrr í gær var talið að hásinin væri trosnuð en við aðra skoðun í gærkvöldi voru taldar verulegar líkur á hásinin væri slitin. Það er svipað og fyrsta mat sjúkraþjálfara Akureyrarliðsins var strax eftir leikinn við Aftureldingu á laugardagskvöldið. 

Sé hásinin slitin er um gríðarlegt áfall að ræða fyrir Akureyrarliðið og Stropus sem hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu í vörn jafnt sem sókn.

Sjö leikmenn Akureyrar eru á sjúkra- og veikindalista og er það mesti hausverkur fyrir Sverre að púsla saman liði við þessar aðstæður og hefur hann m.a. orðið að kalla inn leikmenn úr þriðja aldursflokki til þess að hafa úr nægum fjölda leikmann að ráða í síðustu viðureignum. Sverre telur þó verulegar líkur á að Patrekur Stefánsson verður fljótlega klár í slaginn. Hann var ekki með Akureyrarliðinu gegn Aftureldingu síðasta laugardag sökum veikinda.

Sjálfur veltir Sverre fyrir sér að taka fram keppnisskóna á nýjan leik.

Akureyri er í hópi þriggja neðstu liða með 9 stig eftir 13 leiki eins og Fram og Stjarnan. Síðarnefnda liðið á leik til góða. Akureyringar hafa sótt í sig veðrið í undanförnum leikjum og fengið stig út úr fimm síðustu viðureignum sínum í deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert