Danir hafna álfubikarnum

Mikkel Hansen er meðal þeirra sem segja einfaldlega ekki pláss …
Mikkel Hansen er meðal þeirra sem segja einfaldlega ekki pláss fyrir nýja keppni á handboltadagatalinu. AFP

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, er með hugmyndir um að koma á fót sérstökum álfubikar, þar sem að ólympíumeistararnir, heimsmeistararnir og sigurvegarar í álfukeppnunum myndu mætast.

IHF kynnti hugmynd sína í haust og sér fyrir sér að hægt verði að spila mótið í nóvember annað hvert ár, frá og með næsta ári. Danska handknattleikssambandið, DHF, hefur hins vegar hafnað því að taka þátt og þar með yrðu ólympíumeistarar Guðmundar Guðmundssonar að minnsta kosti ekki með á mótinu.

„Ásamt Frakklandi og Noregi höfum við sagt nei við Álfubikarnum,“ sagði Morten Stig Christensen, framkvæmdastjóri DHF, við TV2. Áður höfðu stjörnur danska liðsins eins og Mikkel Hansen og Niklas Landin sagt að þeim litist ekkert á það að bæta enn frekar við þétta leikjadagskrá hjá sér með landsliði og félagsliði.

Í ljósi áhugaleysis stórþjóða í handboltanum eins og Frakklands og Danmerkur er talið ólíklegt að Álfubikarinn verði að raunveruleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert