„Ég er drullusvekktur“

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er drullusvekktur að fá ekkert út úr þessum leik því strákarnir sýndu mikinn karakter í þessum leik,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir naumt tap liðsins fyrir Íslandsmeisturum Hauka, 32:30, á heimavelli í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik.

„Strákarnir sýndu loksins í þessum leik þá baráttu sem vantað hefur í síðustu leikjum okkar. Neistann hefur vantað í augu leikmanna þar til í kvöld. Við vorum að mörgu leyti óheppnir með að fá brottvísanir snemma leiks, einn okkar fékk rautt spjald auk þess sem Þorsteinn Gauti meiddist og var utan vallar um tíma,“ sagði Guðmundur Helgi.

„Framan af fyrri hálfleik lokað Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Hauka, markinu og við lendum mikið undir fyrsta korterið í leiknum en eftir að við fundum leiðir fram hjá honum jafnaðist leikurinn og við áttum í fullu tré við Haukana lengst af,“ sagði Guðmundur Helgi en Fram-liðið hefur nú tapað fimm leikjum í röð og situr í næstneðsta sæti með 9 stig eftir 14 leiki.

„Ef baráttan verður svipuð hjá strákunum í næstu leikjum þá er ýmislegt hægt,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir leikinn í Safamýri í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert