Lékum illa en unnum

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. mbl.is/Ófeigur

„Við unnum karakters-sigur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir nauman sigur, 32:30, á Fram í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. „Við vorum langt frá að leika eins vel og við getum en tókst samt að vinna í miklum baráttuleik þar sem mjög jafnt var á öllum tölum í síðari hálfleik. Að vinna slíka leiki er merki um karakter í liðinu,“ sagði Gunnar en þetta var sjöundi sigurleikur Hauka í röð. Nú eru þeir aðeins tveimur stigum á eftir Aftureldingu sem er á toppnum með 20 stig að loknum 14 leikjum.

„Menn voru of spenntir framan af leik sem varð til þess að þeir gerðu allt of mikið af mistökum. Ég var alls ekki ánægður með leikinn en sigurinn er þeim mun sætari. Það er styrkleikamerki að geta unnið leiki þótt liðið leiki illa,“ sagði Gunnar.

„Arnar Birkir Hálfdánsson var í miklum ham í Fram-liðinu. Hann reyndist okkur erfiður. Þegar hann er í svona ham þá fleytir það Fram-liðinu langt.“

Gunnar segir að Hauka-liðið hafi farið illa að ráði sínu á fyrstu 15-20 mínútum leiksins í kvöld en það náði sex marka forskoti og virtist ætla að sigla öruggum sigri í höfn gegn næstneðsta liði deildarinnar. „Þá hélt vörnin vel og Grétar Ari Guðjónsson varði mjög vel. En um leið og vörnin gaf eftir og við héldum áfram að gera mörg mistök í sókninni þá var forskotið fljótt að renna okkur úr greipum. Þá hleyptum við Fram-liðinu inn í leikinn, gerðum okkur erfitt fyrir.

Stigin tvö eru hins vegar góð þegar á allt er litið. Þau skipta mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert