Markmiðið er skýrt

Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna.
Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Markmiðið er að tryggja okkur sæti í umspilinu um HM-sætið. Það er alveg skýrt,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, en á morgun, laugardag og á sunnudag leikur íslenska landsliðið þrjá leiki í forkeppni heimsmeistaramótsins.

Leikirnir fara fram í Færeyjum en auk landsliða heimakvenna og Íslands verða landslið Austurríki og Makedóníu í keppninni. Tvö af fjórum liðum tryggja sér sæti í næstu umferð keppninnar sem eru umspilsleikir um sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Þýskalandi eftir ár. Umspilsleikirnir fara fram í júní en dregið verður um hvaða lið mætast sunnudaginn 18.desember.

Axel fór með lið sitt til Færeyja í morgun en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður við Austurríki síðdegis á morgun.  Á laugardaginn leið landsliðs Íslands og Færeyja saman hesta sína og loks leikur íslenska landsliðið við landslið Makedóníu á sunnudaginn.

Axel vildi lítið gefa út um hver hann teldi að verði erfiðasti andstæðingur íslenska landsliðsins í keppninni sem framundan er.  „Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á það sem þjálfari að bera mikla virðingu fyrir andstæðingnum, hver sem hann er. Færeyingar hafa tekið miklum framförum síðustu árin og sömu sögu er að segja um austurríska landsliðið.

Við vitum kannski einna minnst um landslið Makedóníu. Það liggur fyrir að leikmenn landsliðsins leika m.a. í Rúmeníu, Ungverjalandi og eitthvað heimavið. Eitt besta kvennalið í heiminum, Vardar, er frá Makedóníu. Með því liði leikur engin heimakona svo það hjálpar landsliðinu ekkert. En við náum að fylgjast með þeim í tveimur leikjum í Færeyjum áður en við mætum þeim á sunnudaginn. Það er kostur,“ sagði Axel .

„Það er alveg ljóst að við getum unnið öll þrjú liðin en til þess verðum við að laða fram allt það besta í okkar leik,“ segir Axel sem er nýlega tekinn við þjálfun landsliðsins og eru leikirnir í Þórshöfn fyrstu stórleikir íslenska landsliðsins undir stjórn Axels.

Íslenska landsliðið æfði saman hér á landi undir stjórn Axels  í rúma viku áður en það fór til Færeyja. Auk þess þá var íslenska liðið saman í fimm daga við æfingar og keppni undir stjórn Axels í haust.  „Æfingarnar núna hafa verið dýrmætar auk tímans sem við fengum í haust.

Nú taka við þrír leikir á þremur dögum þar sem mikið er undir. Það er spennandi tími framundan hjá okkur. Ég er alltaf bjartsýnn. Hópurinn er vel samsettur, samstaðan er góð og við hlökkum til,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við mbl.is áður en hann hélt til Færeyja.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert