„Vantar drápseðlið í okkur“

Jóhann Birgir Ingvarsson.
Jóhann Birgir Ingvarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Eins og leikurinn þróaðist undir lokin þá verð ég að vera sáttur við þessi úrslit,“ sagði FH-ingurinn Jóhann Birgir Ingvarsson við mbl.is eftir jafntefli gegn Aftureldingu, 23:23, í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld.

„Mér finnst vanta svolítið drápseðlið í okkur. Þegar við komust fjórum mörkum yfir í byrjun seinni hálfleiks áttum við bara að halda áfram en þess í stað slökuðum við á og hleyptum þeim inn í leikinn. Við vildum fá bæði stigin en við virðum þetta stig,“ sagði Jóhann Birgir sem sýndi fína takta og skoraði sex mörk fyrir Hafnarfjarðarliðið á móti toppliðinu.

„Við settum okkur það markmið fyrir mótið að enda á meðal þriggja efstu liða og mér finnst við alveg eiga heima þar. Við erum að standa okkur vel án okkar lykilleikmanns, Ásbjörns Friðrikssonar, og þegar hann mætir aftur til leiks þá verðum við bara sterkari. Ási er leiðtoginn okkar.“

„Kristófer reyndist okkur erfiður í markinu. Sjálfur hef ég aldrei spilað á móti honum og það tók sinn tíma að átta sig á því hvar maður þurfti að skjóta á hann,“ sagði hinn kraftmikli Jóhann Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert