Wilbek neitaði Þjóðverjum

Ulrik Wilbek hefur afþakkað að taka við þýska karlalandsliðinu í …
Ulrik Wilbek hefur afþakkað að taka við þýska karlalandsliðinu í handknattleik. AFP

Ulrik Wilbek, fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana í handknattleik, afþakkaði á dögunum tilboð frá þýska handknattleikssambandinu um að taka við af Degi Sigurðssyni sem þjálfari þýska karlalandsliðsins. 

Frá þessu er greint í þýsku og dönskum fjölmiðlum í dag. Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins hefur staðfest að Wilbek hafi afþakkað boð eða viðræður um að taka við þjálfun þýska landsliðsins. Dagur lætur af störfum að loknu heimsmeistaramótinu í Frakklandi í lok janúar. 

Hanning segir að Wilbek hafi verið einn þriggja þjálfara sem þýska sambandið hafi verið með í sigtinu. 

Þar með mun valið standa á milli Christian Prokop, þjálfara karlaliðs Leipzig  og Markus Baur, sem nú er þjálfari Stuttgart. Baur þjálfaði þýska unglingalandsliðið frá 2012 og þangað til fyrr á þessu ári að hann sagði starfinu lausu. 

Wilbek stefnir á að verða bæjarstjóri í Viborg að loknum sveitarstjórnarkosningum sem fram fara í Danmörku snemma á næsta ári. Wilbek er í framboði fyrir hægri flokkinn venstre. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert