Jacobsen tekur við af Guðmundi

Nikolaj Jacobsen, þjálfari þýsku meistaranna Rhein-Neckar Löwen, hefur verið ráðinn …
Nikolaj Jacobsen, þjálfari þýsku meistaranna Rhein-Neckar Löwen, hefur verið ráðinn eftirmaður Guðmundar Þórðar Guðmundssonar sem landsliðsþjálfari Dana í handknattleik karla. Ljósmynd/heimasíða Rhein-Neckar Löwen

Danska handknattleikssambandið hefur staðfest að Nikolaj Jacobsen taki við af Guðmundi Þórði Guðmundssyni sem landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Jacobsen hefur störf 1. ágúst á næsta ári.

Guðmundur Þórður mun þar með halda sínu striki og stýra danska landsliðinu á HM í Frakklandi í næsta mánuði og í fjórum leikjum í undankeppni Evrópumeistaramótsins í maí og í júní.

Samningur Jacobsen við danska handknattleikssambandið er til fjögurra ára. Samhliða starfi sínu hjá danska landsliðinu verður Jacobsen einnig þjálfari þýska meistaraliðsins Rhein-Neckar Löwen fram á mitt ár 2019 eins og samningur hans við Löwen kveður á um. Jacobsen verður fyrsti landsliðsþjálfari Dana í handknattleik um langt árabil sem stýrir félagsliði samhliða þjálfun landsliðsins. 

Guðmundur Þórður ákvað í síðasta mánuði að halda ekki áfram þjálfun ólympíumeistaraliðs Dana eftir að samningur hans rennur út um mitt næsta ár. Fljótlega eftir að Guðmundur tilkynnti ákvörðun sína var Jacobsen orðaður við starfið og fyrir nokkru spurðist út að samningur milli hans og danska handknattleikssambandsins væri í burðarliðnum. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jacobsen verður eftirmaður Guðmundar. Jacobsen tók við þjálfun Löwen sumarið 2014 þegar Guðmundur hætti hjá liðinu til þess að taka við þjálfun danska landsliðsins. Báðir eru þeir einnig fyrrverandi vinstri hornamenn og landsliðsmenn.  Jacobsen lék 148 landsleiki fyrir Dani frá 1991 til 2003 og skoraði í þeim leikjum 584 mörk. 

Henrik Kronborg, sem verið hefur aðstoðarlandsliðsþjálfari með Guðmundi síðustu mánuði, vinnur áfram með Jacobsen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert