Ellefu sigrar og sjö stiga forskot

Björgvin Páll Rúnarsson og Breki Dagsson skoruðu mest fyrir Fjölni.
Björgvin Páll Rúnarsson og Breki Dagsson skoruðu mest fyrir Fjölni. mbl.is/Golli

Fjölnir náði í gærkvöld sjö stiga forystu í 1. deild karla í handknattleik með því að vinna sinn ellefta sigur í jafnmörgum leikjum í deildinni í vetur.

Fjölnismenn fóru austur á Selfoss og unnu þar auðveldan sigur á Mílunni, 29:14. Þeir gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 16:5. Breki Dagsson skoraði 8 mörk fyrir Fjölni og Björgvin Páll Rúnarsson 6 en Trausti Elvar Magnússon skoraði 4 mörk fyrir Míluna.

Þróttur vann Hamrana, 30:25, í Laugardalshöllinni eftir að hafa verið undir í hálfleik, 11:12. Guðni Guðmundsson, Styrmir Sigurðarson, Aron Heiðar Guðmundsson og Jón Hjálmarsson skoruðu 5 mörk hver fyrir Þrótt en Elfar Halldórsson skoraði 7 mörk fyrir Akureyrarliðið.

Víkingur vann ungmennalið ÍBV, 27:22, í Víkinni. Víglundur Jarl Þórsson skoraði 9 mörk fyrir Víking en Gabríel Martinez Róbertsson gerði 6 mörk fyrir Eyjamenn.

Fjölnir er með 22 stig á toppnum, KR er með 15 stig Víkingur 14, ÍR 14, HK 13, Þróttur 12, Valur U 10, Stjarnan U 9, Akureyri U 6, Hamrarnir 4, Mílan 3 og ÍBV U er með 2 stig.  HK og Hamrarnir mætast í dag og HK mætir síðan ÍR á miðvikudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert