Óvænt úrslit strax á fyrsta degi EM

Þjóðverjar komu flestum á óvart með sigri á Hollendingum.
Þjóðverjar komu flestum á óvart með sigri á Hollendingum. AFP

Það var mikið fjör á fyrsta degi lokakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik sem hófst í dag. Blásið var til markaveislu auk þess sem óvænt úrslit litu dagsins ljós.

Gestgjafarnir frá Svíþjóð spiluðu fyrir fullu húsi og gríðarlegri stemmningu í Stokkhólmi þar sem mótherjinn var silfurverðlaunahafi síðasta Evrópumóts; Spánverjar. Svíar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10, en leikurinn var ansi kaflaskiptur.

Johanna Bundsen fór á kostum í marki þeirra eftir hlé þar sem Spánverjar skoruðu ekki mark í rúmar tíu mínútur og var munurinn mestur átta mörk. Að lokum unnu Svíar með sex mörkum, 25:19, og þarf allt að fara úrskeiðis ef liðið kemst ekki áfram úr A-riðlinum.

Hinn leikur riðilsins og raunar fyrsti leikurinn á mótinu var viðureign Serbíu og Slóveníu. Slóvenar eru að spila á sínu fyrsta stórmóti í sex ár og er ekki búist við miklu af þeim á þessu móti. Úr varð hörkuspennandi viðureign þar sem mörkunum hreinlega rigndi en lokatölur urðu 36:34 fyrir Serbíu.

Serbar voru aðeins tveimur mörkum frá því að jafna eigið markamet á Evrópumóti, en mest hefur liðið skorað 38 mörk í frægu tapi þeirra fyrir Ungverjalandi á EM 2012, 41:38.

Isabelle Gullden, stjarna Svía, fagnar marki gegn Spánverjum í dag.
Isabelle Gullden, stjarna Svía, fagnar marki gegn Spánverjum í dag. AFP

Allt í uppnámi í Kristianstad

Það voru óvænt úrslit í B-riðli sem leikinn er í Kristianstad. Búist er við miklu af liði Hollands, sem vann silfurverðlaun á síðasta heimsmeistaramóti. Þjóðverjar mæta hins vegar með nokkuð laskað lið til leiks, en það var ekki að sjá í dag.

Hollendingar voru yfir í hálfleik, 14:13, og var síðari hálfleikur jafn framan af. Notast er við myndbandsupptökur í fyrsta sinn á Evrópumóti og nýttu dómarar leiksins sér það þegar Kelly Duffer, varnarmaður Hollendinga, fékk að líta rauða spjaldið.

Eftir það gekk allt á afturfótunum hjá Hollendingum þegar komið var fram á lokamínúturnar og Þjóðverjar fóru með mjög óvæntan sigur af hólmi, 28:25.

Í hinum leik riðilsins og síðasta leik kvöldsins áttu Frakkar, silfurverðlaunahafar frá síðustu Ólympíuleikum, ekki í neinum vandræðum með Pólverja. Eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfeik, 15:9, fóru Frakkar með níu marka sigur af hólmi, 31:22, sem hefði hæglega getað verið stærri.

B-riðillinn er því orðinn galopinn strax eftir þessa fyrstu umferð. Frakkar og Hollendingar mætast í síðustu umferðinni og búist var við að sá leikur myndi ráða því hvort þeirra liða myndu sigra riðilinn, en nú hafa Þjóðverjar heldur betur snúið öllu á hvolf.

Amanda Kolczynski skorar eitt af fimm mörkum sínum fyrir Frakka …
Amanda Kolczynski skorar eitt af fimm mörkum sínum fyrir Frakka gegn Pólverjum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert