„Þær eru allar langt niðri“

Axel Stefánsson tók við sem landsliðsþjálfari í sumar.
Axel Stefánsson tók við sem landsliðsþjálfari í sumar. mbl.is/Eggert

„Þær eru allar langt niðri. Við komum öll í þennan leik til að gera okkar besta og erum auðvitað mjög svekkt, því við getum öll gert betur. Manni líður bölvanlega með þetta,“ sagði Axel Stefánsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í handbolta, eftir tapið gegn Makedóníu í dag.

Ísland tapaði 27:20 og er þar með úr leik í forkeppni HM, svo framarlega sem Austurríki vinnur Færeyjar í leik sem nú stendur yfir, eins og búast má fastlega við. Sigrar Íslands á Austurríki og Færeyjum duga ekki til, þar sem Austurríki vann Makedóníu og Ísland er með verstu markatöluna úr innbyrðis viðureignum liðanna þriggja, en tvö lið komast áfram.

„Við náðum ekki að fara upp á það stig sem við viljum vera á í vörninni. Þá verður þetta erfitt. Þær komust í góð færi og náðu vörninni okkar vel í sundur. Við þurfum að vinna með það hvernig við undirbúum okkur andlega fyrir svona leiki. Ég held að það sé stærsti þátturinn,“ sagði Axel, sem vildi ekki taka undir að Ísland hefði vanmetið andstæðing sinn, sem tapaði með níu marka mun gegn Austurríki.

„Við vissum að þær hefðu tekið sína reyndustu leikmenn út af og hvílt þá í leiknum gegn Austurríki. Við reiknuðum alveg með hörkuleik, en náðum einhvern veginn ekki að gíra okkur upp í það. Við þurfum að skoða af hverju það var og vinna með það, eins og marga fleiri þætti,“ sagði Axel, og hann vildi ekki meina að það hefði verið farið að sjóða á sér þegar sást í hvað gæti verið að stefna í seinni hálfleik.

Ýmsar hugsanir í gegnum hugann

„Það er mikilvægt að halda haus og reyna að finna lausnir. Við reyndum eitt og annað, og vorum að mörgu leyti að koma okkur í fín færi en náðum ekki að klára þau. Það fóru ýmsar hugsanir í gegnum hugann, en svona er þetta bara. Við vitum alveg að öll dauðafæri telja rosalega mikið í svona leikjum, en við þurfum bara að læra af þessu og gera betur næst,“ sagði Axel.

Ísland missir því af umspilsleikjum um sæti á HM sem fram fara næsta sumar, og það er auðvitað dýrkeypt, sama hvernig þeir hefðu farið:

„Þegar við erum að byggja upp lið þá er svakalega mikilvægt að fá svona leiki, sem við lærum af og verðum betri af að spila. Þessir þrír leikir hér í Færeyjum hafa verið ómetanleg reynsla fyrir okkur og við þurfum að nýta hana á réttan hátt,“ sagði Axel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert