Tólf íslensk mörk hjá Löwen

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk fyrir Löwen.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk fyrir Löwen. Ljósmynd / Foto Olimpik

Rhein-Neckar Löwen hélt áfram sigurgöngu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld og vann Hannover-Burgdorf á heimavelli, 34:30. Íslendingarnir í liði Löwen gerðu 12 af mörkunum.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk og Alexander Petersson 5 en Rúnar Kárason náði ekki að skora fyrir Burgdorf. Löwen er með 24 stig úr 13 leikjum, hefur unnið tólf þeirra, en er tveimur stigum á eftir Flensburg og Kiel sem eru bæði með 26 stig eftir 14 leiki.

Bergischer situr nú á botni deildarinnar með 5 stig eftir tap fyrir Coburg á útivelli, 28:26, en liðin höfðu sætaskipti í tveimur neðstu sætunum. Arnór Þór Gunnarsson skoraði 4 mörk fyrir Bergischer. Björgvin Páll Gústavsson varði mark liðsins rúmlega helming leiktímans og varði 3 skot.

Í B-deildinni skoraði Oddur Gretarsson 2 mörk fyrir Emsdetten í útisigri á Neuhausen, 32:26, og Fannar Þór Friðgeirsson skoraði 2 mörk fyrir Hamm sem sigraði Konstanz, 35:23, á heimavelli. Emsdetten er í 12. sæti og Hamm í 15. sæti af 20 liðum í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert