Grótta sigldi áfram í bikarnum

Lárus Helgi Ólafsson og Þráinn Orri Jónsson eru komnir í …
Lárus Helgi Ólafsson og Þráinn Orri Jónsson eru komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar í handknattleik ásamt félögum sínum í Gróttu. mbl.is/Ófeigur

Grótta komst í kvöld í 8-liða úrslit Coca Cola-bikarkeppninnar í handknattleik karla þegar liðið vann HK 2, 32:21, í Digranesi. Seltirningar voru sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10, og höfðu yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. 

Reyndir leikmenn sem hafa fyrir nokkru dregið saman seglin á handboltavellinum voru uppistaðan í HK-liðinu sem mætti Gróttu að þessu sinni. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. 

Grótta bættist þar með í hóp með FH, Aftureldingu, Haukum, Val og Fram sem áður höfðu tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar. Enn eiga tvö lið eftir að bætast í hópinn þar sem viðureignir Víkings og Selfoss annars vegar og HK og Stjörnunnar hafa ekki farið fram. 

Mörk HK 2: Hákon Hermannsson Bridde 5, Karl Gunnarsson 5, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 3, Björn Þórsson Björnsson 2, Ragnar Hjaltested 2, Daníel Már Pálsson 2, Alexander Arnarsson 1, Már Þórarinsson 1. 

Mörk Gróttu: Kristján Þór Karlsson 7, Finnur Ingi Stefánsson 6, Árni Benedikt Árnason 3, Aron Dagur Pálsson 3, Elvar Friðriksson 3, Leonharð Þorgeir Harðarson 2, Hlynur Rafn Guðmundsson 2, Hannes Grimm 2, Þórir Bjarni Traustason 1, Pétur Árni Hauksson 1, Vilhjálmur Geir Hauksson 1, Þráinn Orri Jónsson 1. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert