Svona slæm er staðan

Rut Jónsdóttir
Rut Jónsdóttir mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er rosalegt högg, og ég held að við séum ekki alveg búnar að meðtaka þetta allt. Það er mjög erfitt að hugsa til þess að okkar bíði ekki leikir í júní – þessir leikir sem okkur finnst svo skemmtilegir og við viljum fara í. Úff, þetta er þvílíkt högg,“ sagði Rut Jónsdóttir, landsliðskona í handbolta, við Morgunblaðið í gær.

Þá var orðið ljóst að Ísland kæmist ekki áfram úr forkeppninni fyrir HM í Þýskalandi á næsta ári. Hve miklu munaði? Einu marki sem kom á síðustu sekúndunni í 27:20-tapi gegn Makedóníu í þriðja og síðasta leiknum.

Ísland hafði unnið góðan sigur á Austurríki, 28:24, og rúllað yfir Færeyjar eins og Makedónía og Austurríki gerðu. Tvö lið komust áfram úr riðlinum og var ljóst að Ísland mætti tapa með allt að sex marka mun gegn Makedóníu, því Makedónía yrði þá enn með verstu markatöluna í innbyrðis viðureignum við Ísland og Austurríki. Ísland tapaði hins vegar með sjö mörkum.

Hafi fólki ekki verið ljóst að staða íslenska landsliðsins væri slæm, og að mikil vinna biði leikmanna og hins nýja þjálfara, Axels Stefánssonar, var það undirstrikað í gær. Eftir tvo góða leiki stóð ekki steinn yfir steini í upphafi leiks gegn Makedóníu. Varnarleikurinn var algjörlega skelfilegur og markvarslan engin, og Makedónía komst strax í 9:3. Leikur Íslands batnaði eftir þetta, til að mynda með innkomu Rutar í fyrsta leik eftir höfuðmeiðsli, en liðið var alltaf í baráttu um að halda muninum innan við sjö mörk – baráttu sem að lokum tapaðist.

Nánar er fjallað um íslenska landsliðið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert