„Vanir að spila í svona spennu“

Óðinn með boltann í leik með FH.
Óðinn með boltann í leik með FH. Ófeigur Lýðsson

FH-ingurinn svali, Óðinn Þór Ríkharðsson, fór mikinn í fyrri hálfleiknum í kvöld þegar FH sótti Akureyri heim í 16 liða úrslitum Coca-Cola bikars karla. Hann hreinlega sveif fram völlin í hraðaupphlaupunum og raðaði inn mörkum. FH vann leikinn en tæpt var það. Eitt mark skildi í lokin og heimamenn á Akureyri fengu síðustu sóknina.

Vörðu FH-ingar lokaskot norðanmanna og fögnuður þeirra var innilegur í framhaldinu. Óðinn Þór var gripinn í viðtal eftir leik.

„Þetta var bara enn einn spennuleikurinn hjá okkur. Við erum orðnir vanir svona leikjum og viljum hafa þetta svona. Það er langskemmtilegast. Það er best að vinna þetta svona. Við vorum hérna fyrir mánuði og spiluðum svipaðan leik sem við misstum niður í jafntefli. Það kom ekki til greina að slíkt myndi gerast aftur. Við stóðum þessa lokavörn og vorum mjög þéttir. Þeir fundu enga glufu.“

Óðinn Þór virðist finna sig vel í KA-heimilinu og skorar hann mikið í leikjunum gegn Akureyri.

„Já, mér gengur vel hérna. Vörnin og markvarslan voru að skila nokkrum hraðaupphlaupum og ég kláraði þau bara. Ágúst Elí finnur mig alltaf þegar hann grýtir boltanum fram.“

En fór ekkert um Óðin þarna í lokin þegar Akureyringar voru við það að ná FH-ingum?

„Nei. Við erum orðnir mjög vanir að spila í svona spennu og erum farnir að klára leikina, langflesta alla vega. Við erum bara orðnir mjög flottir og erum á skriði. Við ætlum bara að halda því.“

Nú var reynsluboltinn Ásbjörn Friðriksson settur inn á undir restina og hann var næstum búinn að klára leikinn en klúðraði skotinu sínu. Var ekki tóm vitleysa að henda honum inn á?

„Ási er bara svona leikmaður sem getur klárað en það gekk ekki í dag og við þurftum bara að standa síðustu vörnina í staðinn. Við erum drullusáttir og þetta var bara geggjað,“ sagði Óðinn léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert