Óvæntustu úrslit EM hingað til

Slóvenar fagna í leikslok en sænski hornamaðurinn Louise Sand er …
Slóvenar fagna í leikslok en sænski hornamaðurinn Louise Sand er niðurlút. AFP

Það var nokkuð um söguleg úrslit á þriðja keppnisdegi á lokakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik sem fram fer í Svíþjóð, en þriðja keppnisdegi lauk nú í kvöld.

Slóvenar komu öllum á óvart þegar þeir lögðu gestgjafa Svía í A-riðli í Stokkhólmi, 25:23. Eftir sex marka sigur á silfurliði síðasta Evrópumóts, Spánverjum, í fyrstu umferð var allt annað að sjá til Svía í kvöld og sigur Slóveníu var fyllilega verðskuldaður. Enginn virtist með lífsmarki hjá Svíum fyrir utan stjörnu þeirra, Isabelle Gullden, sem skoraði tíu mörk.

Þetta var fyrsti sigur Slóveníu á liði Svía frá upphafi, og kemur ekki síst á óvart fyrir þær sakir að Slóvenía tryggði sér nú sæti á EM í fyrsta sinn í sex ár. Á síðasta Evrópumóti árið 2010 lenti liðið í sextánda og síðasta sæti.

Þrátt fyrir tapið eru Svíar engu að síður öruggir um farseðilinn í milliriðil keppninnar og fylgja Serbum áfram sem skelltu Spánverjum, einnig 25:23. Er það jafnframt fyrsti sigur Serba á Spánverjum frá upphafi.

Serbar náðu mest níu marka forskoti í síðari hálfleik áður en áhlaup Spánverja kom undir lokin. Marta Mangue, fyrirliði Spánar, fór meidd af velli í fyrri hálfleik og munaði um minna fyrir liðið. Spánverjar eru stigalausir fyrir síðustu umferðina.

Þá mæta þeir Slóvenum og þurfa sigur til að komast áfram en Slóvenum dugir stig. Svíar mæta Serbum þar sem efsta sæti riðilsins er undir.

Isabelle Gullden í kröppum dansi í kvöld. Hún skoraði tíu …
Isabelle Gullden í kröppum dansi í kvöld. Hún skoraði tíu mörk en það dugði Svíum ekki. AFP

Hollendingar jöfnuðu markamet sitt

Einnig var leikið í B-riðli keppninnar þar sem Frakkar tryggðu sæti sitt í milliriðli með sigri á Þjóðverjum, 22:20.

Jafnt var í hálfleik, 11:11, en 7:2 kafli Frakka í byrjun síðari hálfleiks greiddi leið þeirra að sigrinum. Frakkar, silfurverðlaunahafar frá Ólympíuleikunum í Ríó, eru með fullt hús eftir tvær umferðir og öruggir áfram sem fyrr segir.

Hollendingar komust á sigurbraut þegar liðið skellti Pólverjum, 30:21, og jöfnuðu um leið markamet sitt á Evrópumóti. Tess Wester fór á kostum í marki þeirra, varði 17 skot og var útnefnd leikmaður leiksins.

Pólverjar eru án stiga í riðlinum en Þjóðverjar og Hollendingar eru með tvö stig. Þrjú efstu liðin komast áfram en úrslitin í lokaumferðinni ráða miklu um það hversu mörg stig liðin taka með sér í milliriðla.

Frakkar eru komnir áfram í milliriðil.
Frakkar eru komnir áfram í milliriðil. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert