Vill hvíld og spilar ekki fyrir Dag

Hendrik Pekeler, fyrir miðju, hlustar á leiðbeiningar Dags á Ólympíuleikunum.
Hendrik Pekeler, fyrir miðju, hlustar á leiðbeiningar Dags á Ólympíuleikunum. AFP

Línumaðurinn öflugi Hendrik Pekeler, sem leikur með Guðjóni Val Sigurðssyni og Alexander Petersson hjá Rhein-Neckar Löwen, ætlar ekki að spila með Þýskalandi á HM í handbolta í Frakklandi í janúar.

Pekeler, sem er 25 ára gamall, ákvað að gefa ekki kost á sér því hann segir nauðsynlegt að gefa líkamanum frí eftir mikið álag á árinu 2016. Pekeler var í liði Dags Sigurðssonar sem varð Evrópumeistari í janúar og fékk bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst.

Pekeler hefur hins vegar komið þeim skilaboðum til Dags að komi upp neyðarástand þá geti hann verið til taks. Það sé svo undir Degi komið hvort hann setji Pekeler á lista yfir þá 28 leikmenn sem verði gjaldgengir á mótinu.

„Eftir langa og mikla umhugsun hef ég ákveðið að taka ekki þátt á HM í janúar. Ákvörðunin er ekki auðveld því mér finnst gaman að spila fyrir Þýskaland og við erum með frábært og samheldið lið. En líkamlegt og andlegt álag sem fylgir því að hafa spilað á EM, Ólympíuleikunum, í Meistaradeildinni, þýsku deildinni og bikarnum, hefur haft sitt að segja. Ég tel að ég þurfi að taka mér hlé svo ég geti einfaldlega spilað handbolta í framtíðinni,“ sagði Pekeler, sem kveðst hins vegar ekki hættur með þýska landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert