Arnór hefur ekki gefið HM upp á bátinn

Arnór Atlason stefnir ótrauður á að gefa kost á sér …
Arnór Atlason stefnir ótrauður á að gefa kost á sér í íslenska landsliðið í handknattleik fyrir HM í Frakklandi í næsta mánuði. Ljósmynd / Foto Olimpik

Handknattleiksmaðurinn Arnór Atlason segist alls ekki vera búinn af gefa upp á bátinn að leika með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Frakklandi í næsta mánuði. Vissulega glími hann við meiðsli og hafi gert um nokkurt skeið.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 að væntanlega verði Arnór ekki með íslenska landsliðinu á HM. Arnór sagði við mbl.is í kvöld að staðan væri langt í frá þannig að sínu viti. „Ég hef verið slæmur í vetur en reif eitthvað upp í síðustu viku. Vonandi er bara um tognun í magavöðvum að ræða en ekki bólgur í lífbeininu,“ sagði Arnór sem fer í myndatöku á morgun og væntir þess að niðurstaðan liggi fyrir á föstudaginn um hvað nákvæmlega hrjáir hann. Arnór er bjartsýnn.

„Ég er langt frá að gefa HM upp á bátinn,“ sagði Arnór við mbl.is en hann hefur glímt við eymsli frá í haust en tók engu að síður þátt í leikjunum við Tékka og Úkraínumenn í undankeppni EM í byrjun síðasta mánaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert