Þórir í milliriðil eftir stærsta sigur EM til þessa

Þórir Hergeirsson sáttur á hliðarlínunni í kvöld.
Þórir Hergeirsson sáttur á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik, er kominn með lið sitt áfram í milliriðil á lokakeppni Evrópumótsins og það með stæl eftir að hafa rótburstað á Króatíu í D-riðli keppninnar í kvöld, 34:16.

Leikurinn var jafn framan af fyrri hálfleik, en þegar hálfleikurinn fór að nálgast seig norska liðið fram úr. Í stöðunni 8:8 skoraði liðið næstu sjö af átta mörkum leiksins og voru sex mörkum yfir í hálfleik, 15:9.

Síðari hálfleikurinn var svo algjör einstefna hjá norska liðinu. Eftir að hafa breytt stöðunni úr 19:12 í 26:12 hélt Noregur áfram að hamra járnið meðan heitt var og þegar yfir lauk munaði 18 mörkum á liðunum, lokatölur 34:16.

Þetta er þó ekki stærsti sigur Noregs á EM, en tvívegis hefur liðið sigrað með 23 marka mun. Í bæði skiptin var það gegn Slóveníu, 41:18 árið 2004 og svo 43:20 tveimur árum síðar.

Nora Mørk rauf 400 marka múrinn fyrir norska landsliðið í leiknum, en hún skoraði alls fimm mörk. Markahæst var hins vegar Marit Malm Frafjord, sem skoraði sex. Noregur er með fullt hús stiga og hefur eitt liða úr D-riðli tryggt sæti sitt í milliriðlinum.

Nora Mørk skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld. …
Nora Mørk skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld. Hún hefur nú skorað yfir 400 mörk fyrir Noreg. AFP

Sögulegur sigur á ólympíumeisturunum

Það voru nokkuð óvænt úrslit í hinum leik riðilsins, þar sem ólympíumeistarar Rússa töpuðu fyrir Rúmeníu, 22:17.

Rússar náðu engu að síður að tryggja sæti sitt í milliriðli eftir sigur á Króatíu í fyrstu umferð og eiga ekki möguleika á að lenda í neðsta sæti riðilsins í síðustu umferðinni.

Denisa Dedu fór algjörlega á kostum í marki Rúmena og varði 22 skot, en sigurinn kemur tuttugu árum upp á dag frá síðasta sigri Rúmena á Rússum sem jafnframt var sá fyrsti þar til í kvöld.

Noregur mætir Rússum í lokaleik riðilsins á föstudag.

Cristina Neagu var óstöðvandi sem fyrr með Rúmeníu og skoraði …
Cristina Neagu var óstöðvandi sem fyrr með Rúmeníu og skoraði sjö mörk í nokkuð óvæntum sigri á Rússum. AFP

Danir áfram og háspennusigur í C-riðli

Í C-riðli keppninnar sem leikinn er í Malmö tryggðu Danir sér sæti í milliriðli eftir sigur á Ungverjalandi, 23:19.

Danir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Ungverjar minnkuðu muninn í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en komust aldrei nær og þegar yfir lauk munaði fjórum mörkum á liðunum, 23:19.

Stine Jørgensen var markahæst hjá Dönum líkt og í sigrinum á Svartfellingum í fyrradag og skoraði fimm mörk, en Anita Gorbicz var markahæst hjá Ungverjum með sex mörk.

Í hinum leik riðilsins náðu Svartfellingar í sín fyrstu stig á mótinu eftir háspennusigur á Tékkum, 28:27.

Vinstri vængurinn var eitraður hjá Svartfellingum, þar sem Durdina Jaukovic og Majda Mehmedovic fóru á kostum og skoruðu sjö mörk hvor.

Svartfellingar eru nú með tvö stig líkt og Tékkar, á meðan Danir hafa sem fyrr segir tryggt sæti sitt í milliriðli og eru með fullt hús það sem af er. Danir mæta Tékkum í lokaleiknum á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert