Afturelding rassskellti Stjörnumenn

Jón Heiðar Gunnarsson kastar boltanum í átt að markinu í …
Jón Heiðar Gunnarsson kastar boltanum í átt að markinu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aftureldingarmenn hreinlega kjöldrógu átakanlega slaka leikmenn Stjörnunnar í Olís-deild karla í handknattleik að Varmá í kvöld, lokatölur 29:17 eftir að aðeins var tveggja marka munur í hálfleik, 13:11. Afturelding er þar með áfram í efsta sæti deildarinnar og Stjarnan á botninum á ekkert annað skilið eftir átakanlega slakan leik í síðari hálfleik að þessu sinni.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur en bærilega leikinn af beggja hálfu. Heimamenn voru sterkari og voru með tveggja marka forskot að honum loknum, 13:11. Stjörnumenn vantað herslumun upp á. Þeir komust yfir snemma leiks og aftur, 9:8, þegar vel var liðið á hálfleikinn eftir að þeim tókst að skora þrjú mörk í röð. Varnarleikur Stjörnumanna var hins vegar ekki nægilega sannfærandi. Sveinbjörn Pétursson, markvörður Stjörnunnar, og Kristófer Fannar Guðmundsson, kollegi hans hjá Aftureldingu, voru áberandi í fyrri hálfleik. Báðir vörðu þeir vel.

Hálfleikshléið virtist fara illa í Stjörnumenn sem voru heillum horfnir þegar leikurinn hófst. Aftureldingarliðið náði fljótlega tíu marka forskoti. Hvorki sóknar- né varnarleikur Stjörnunnar var burðugur og markvarslan var engin. Aftureldingarmenn gengu á lagið og léku við hvern sinn fingur. Úr varð leikur kattarins að músinni um tíma. Leikur Stjörnunnar var hreint ævintýralega slakur á tíðum.

Afturelding 29:17 Stjarnan opna loka
60. mín. Kristófer Daðason (Afturelding) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert