Fram rauf taphrinuna með stæl

Anton Rúnarsson Valsmaður stekkur upp fyrir framan vörn Framara í …
Anton Rúnarsson Valsmaður stekkur upp fyrir framan vörn Framara í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Eftir fimm tapleiki í röð í Olís-deild karla í handbolta höfðu Framarar ástæðu til að gleðjast í kvöld þegar þeir unnu góðan sigur á Val, 30:23, í 15. umferðinni.

Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi lengst af en Fram var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11. Arnar Birkir Hálfdánsson hafði látið vel til sín taka í sóknarleik heimamanna og hinn 16 ára gamli Viktor Gísli Hallgrímsson varið vel í markinu, þar á meðal bæði vítaskot gestanna.

Arnar Birkir fór á kostum í upphafi seinni hálfleiks og skoraði þrjú góð mörk og Valsmenn brugðust á endanum við með því að taka hann úr umferð. Þá tóku Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Lúðvík Thorberg Arnkelsson við keflinu en þeir áttu báðir mjög góðan leik. 

Fram komst í 20:16 en Valur minnkaði muninn smám saman í 22:20, þegar tíu mínútur voru eftir. Þá skoruðu heimamenn hins vegar fimm mörk í röð, á meðan Daníel Þór Guðmundsson, sem var mættur í markið hjá þeim, varði nokkrum sinnum úr dauðafærum. Þá átti Guðjón Andri Jónsson frábæra innkomu í hægra hornið.

Fram er nú með 11 stig eins og Akureyri og Grótta, tveimur stigum fyrir ofan botnlið Stjörnunnar. Valur er með 16 stig í 5. sæti deildarinnar.

Fram 30:23 Valur opna loka
60. mín. Hlynur Morthens (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert