Selja skinnið áður en björninn er skotinn

Þórir Hergeirsson hefur verið afar sigursæll sem þjálfari og áður …
Þórir Hergeirsson hefur verið afar sigursæll sem þjálfari og áður aðstoðarþjálfari Noregs. AFP

Norðmenn keyptu 4.000 af þeim 12.000 miðum sem í boði voru á úrslitaleik EM kvenna í handbolta í Svíþjóð, handvissir um að Þórir Hergeirsson muni stýra liðinu þangað.

Evrópumótið hófst á sunnudaginn og hefur Noregur unnið báða leiki sína til þessa í D-riðli. Liðið er því þegar öruggt um sæti í milliriðlum. Ef Norðmenn enda í öðru af tveimur efstu sætunum í milliriðli kemst liðið í undanúrslit, og aðeins að þeim loknum verður ljóst hvort norsku miðahafarnir fá að sjá sitt lið í úrslitaleiknum.

„Þeir selja skinnið áður en þeir hafa skotið björninn. Það gerum við ekki,“ sagði Þórir um málið á fréttamannafundi.

Noregur er ríkjandi Evrópumeistari og hefur reyndar leikið til úrslita síðustu sjö skipti, og unnið fimm sinnum. Það var síðast árið 2000 sem liðið komst ekki í úrslitaleikinn, og það er í raun í eina skiptið í sögunni sem liðið hefur ekki unnið til verðlauna á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert