Þorir ekki að láta sig dreyma um Öskubuskuævintýri

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari TV Hüttenberg, ræðir við leikmenn sína.
Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari TV Hüttenberg, ræðir við leikmenn sína.

„Árangurinn til þessa hefur verið framar vonum og hann er ekki síst athyglisverður fyrir þær sakir að ég er með nánast sama lið núna og fyrir nærri tveimur árum þegar ég tók við þjálfun liðsins,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari þýska handknattleiksliðsins TV Hüttenberg. Liðið vann 3. deildina með glæsibrag og endurheimti sæti sitt í 2. deild eftir eins árs veru. Nú þegar 15 umferðir eru að baki af 38 í 2. deildinni er Hüttenberg í þriðja sæti með 24 stig af 30 mögulegum, aðeins tveimur stigum á eftir Aroni Rafni Eðvarðssyni landsliðsmarkverði og samherjum í Bietigheim sem tróna á toppnum.

Aðalsteinn tók við Hüttenberg í desember 2014. Þá var liðið langneðst í 2. deild og nær öll von úti um að tækist að forða því frá falli. Aðalsteinn hafði nokkru áður þurft að taka pokann sinn hjá Eisenach. Tveimur árum áður hafði Hüttenberg fallið úr 1. deildinni. Þegar Aðalsteinn tók við hafði liðið fallið hratt og kannski ekki spennandi að taka við þjálfun þess við þessar aðstæður. Hann tók til óspilltra málanna við uppbyggingu eins og hann var ráðinn til.

„Gangurinn hefur verið ótrúlegur fram til þessa,“ sagði Aðalsteinn þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær. Spurður um skýringar sagðist Aðalsteinn helst hafa þá skýringu að leikmannahópurinn væri samstíga og góður. „Svo má kannski segja að það sé svolítið íslenskur bragur yfir liðinu, hvað varðar aðstæður. Við erum bara með tvo atvinnumenn. Aðrir leikmenn eru námsmenn sem stunda æfingar með námi sínu eða þá piltar sem eru í vinnu hluta úr deginum og æfa með okkur á kvöldin. Allir strákarnir koma af svæðinu hér í kring og hafa farið í gegnum yngri flokka starfið hjá Hüttenberg eða Wetzlar. Allir eru þeir miklir félagsmenn. Fyrir vikið er stemningin og samstaðan mjög góð, sem hefur mikið að segja,“ sagði Aðalsteinn, sem vill lítið gera úr eigin hlut í árangrinum.

Nánar er rætt við Aðalstein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert