Norðmenn sneru við taflinu

Silje Solberg, markvörður norska landsliðsins, fór á kostum í leiknum …
Silje Solberg, markvörður norska landsliðsins, fór á kostum í leiknum við Rússa. AFP

Heims- og Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna, sem eru undir stjórn Þóris Hergeirssonar, unnu ólympíumeistara Rússa, 23:21, í lokaleik D-riðils á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í kvöld. Norska liðið lét slæma byrjun leiksins ekki slá sig út af laginu en liðið lenti undir, 4:0, í upphafi og jafnaði fyrst metin, 8:8, þegar 23 mínútur voru liðnar af viðureigninni. 

Norðmenn fara þar með áfram í milliriðil með fjögur stig, Rúmenar tvo en Rússar hefja leik án stiga þar sem þeir töpuðu einnig fyrir Rúmenum í riðlakeppninni. 

Staðan var jöfn í hálfleik, 11:11. Rússar komust yfir í byrjun síðari hálfleiks en Norðmenn sóttu í sig veðrið og náðu yfirhöndinni, ekki síst fyrir stórleik markvarðarins, Silje Solberg. Hún varði allt hvað af tók í síðari hálfleik. Norðmenn voru með fjögurra marka forskot, 23:19, þegar sjö mínútur voru eftir. Rússum féll allur ketill í eld á síðustu mínútunum. Þeim tókst ekki að nýta sér að norska liðið skoraði ekki mark á lokamínútunum. Engu máli skipti þótt Evgeny Trefelov, þjálfari Rússa, tæki í tvígang leikhlé á síðustu mínútunum og talaði yfir leikmönnum sínum með tveimur hrútshornum. 

Nora Mörk og Veronica Christiansen skoruðu fimm mörk hvor fyrir norska landsliðið. 

Danir fara einnig áfram í milliriðla með fjögur stig eftir að þeir unnu Tékka, 33:29, í Malmö. Tékkar voru yfir í hálfleik, 17:13. Tékkneska liðið mætir til leiks með tvo stig í milliriðla en Ungverjar ekkert. 

Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu af yfirvegun að vanda.
Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu af yfirvegun að vanda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert