Andri Heimir fluttur þjáður á sjúkrahús

Andri Heimir Friðriksson brýst í gegnum vörn Akureyrar í dag.
Andri Heimir Friðriksson brýst í gegnum vörn Akureyrar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var mjög sáttur við tíu marka sigur sinna manna gegn Akureyri í Olísdeild karla í dag. Lokatölur urðu 29:19 en hálfleikstölur voru 12:10. 

Hann var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn og þá sérstaklega hvernig hans menn spiluðu í seinni hálfleik. 

„Við vorum þolinmóðari sóknarlega. Við duttum niður í sókninni seinni hlutann í fyrri hálfleik og þá fóru þeir að saxa á þetta. Við vorum ekki nógu þolinmóðir. Akureyringar eru góðir, sama hvaða skakkaföllum þeir lenda í þá gefast þeir ekki upp. Við vissum að þetta yrði þolinmæðisverk og þetta tók tíma.“

„Akureyri spilaði vel í fyrri hálfleik en að sama skapi vorum við tempólausir í sókninni, það vantaði meira tempó en við vorum í þriðja gír. Við gáfum í í seinni hálfleik og náðum að klára þá sem var frábært.“

Giedrius Morkunas, markmaður Hauka, átti virkilega góðan leik og varði hann 18 skot. Gunnar var ánægður með sinn mann. 

„Hann var frábær og vörnin fyrir framan hann var frábær. Maður kannast við þetta núna. Auðvitað hjálpar að vera með góða vörn og við náðum betri vörn í dag en að sama skapi þá tók Goggi svolítið extra.“

Andri Heimir Friðriksson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik en hann fékk þá högg á rifbeinið. Gunnar óttast að hann gæti verið brotinn. 

„Hann fékk högg á rifbeinið, ég sá ekki brotið. Hann gæti verið rifbeinsbrotinn. Hann fór beint á spítala og var svolítið þjáður, það er slæmt að missa hann þar sem hann kom flottur inn.“
Guðmundur Árni Ólafsson spilaði nánast ekki neitt í dag og segir Gunnar hann hafa verið tæpan vegna meiðsla. 

„Hann var aðeins tæpur en það var ekkert alvarlegt. Við vorum með Binna og Ella 100%, þá notum við þá frekar,“ sagði Gunnar að lokum.

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert