Hvernig lögðu Íslendingar undir sig handboltaheiminn?

Bogdan Kowalczyk áhyggjufullur í leik gegn Kúbu. Kristján Arason, Alfreð …
Bogdan Kowalczyk áhyggjufullur í leik gegn Kúbu. Kristján Arason, Alfreð Gíslason og Davíð Sigurðsson á bekknum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Þeir þurftu að fá lánaðan Svía til þess að komast hátt í fótboltanum. Í handboltanum hafa þeir hins vegar lagt undir sig heiminn upp á eigin spýtur á síðustu árum.“

Svona hefst umfjöllun Aftonbladet í Svíþjóð um íslenska handknattleiksþjálfara og af hverju þeir eru svona sigursælir. Blaðamenn þeirra gerðu sér ferð til Íslands til þess að leita uppi svör, en þeir binda vonir við að Kristján Andrésson sem tók við liði þeirra í haust muni ná sömu hæðum og landar hans.

„Á síðasta ári leiddu þeir Þýskaland til Evrópumeistaratitils, Danmörku til ólympíumeistaratitils og Noreg til Evrópumeistaratitils. Íslenskir handknattleiksþjálfarar hafa lagt undir sig heiminn.“

Bogdan Kowalczyk.
Bogdan Kowalczyk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bogdan og Boris breyttu öllu

„Þetta er frá þjóð sem telur minna en 350 þúsund íbúa, þar sem aðeins 5.000 manns spila handbolta. Samanborið við Svía, þar sem yfir 20 þúsund manns spila handbolta,“ segir í umfjölluninni.

Til að leita uppi svör hér á landi komust blaðamennirnir að því að það þyrfti að fara aftur um nokkra áratugi. Og við komu Pólverjans Bogdan Kowalczyk til landsins árið 1978 fóru hjólin að snúast. „Hann kynnti eitthvað alveg nýtt í íslenskum handbolta, þar sem mikill kraftur var settur í æfingar og meiri áhersla lögð á taktík. Hver einasti leikmaður í hans liði vissi sitt hlutverk,“ segir Guðjón Guðmundsson, Gaupi, við Aftonbladet.

Seinna kom svo annar þjálfari frá Austur-Evrópu til landsins, Boris Akbatjev, sem ekki hafði minni áhrif.

Bogdan Kowalczyk, lengst til vinstri. Með honum eru Gunnar Þór …
Bogdan Kowalczyk, lengst til vinstri. Með honum eru Gunnar Þór Jónsson læknir, Samúel Örn Erlingsson fréttamaður og Jón Hjaltalín Magnússon, þáverandi formaður HSÍ. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Te? Pepsi? Vodka?“

Sænsku blaðamennirnir heimsóttu Boris á heimili hans í Reykjavík. Hann er nú orðinn 83 ára gamall og vakti strax athygli þeirra þegar hann kom til dyra í dimmri íbúð sinni þar sem hann býr með Olgu, konu sinni.

„Má bjóða ykkur eitthvað að drekka? Te? Pepsi? Vodka?“ segir hann, á meðan rússnesk sápuópera hljómar í sjónvarpinu. Hann og Boris voru ekki að þjálfa hjá sama liði, Boris fór til Vals á meðan Bogdan var hjá Víkingi. En þeirra hugmyndafræði smitaði þó frá sér til landans.

Og Gaupi er á því að án innkomu þeirra í íslenskan handbolta hefði Ísland aldrei unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2008. Jafnvel þótt það hafi gerst 30 árum síðar.

Lesa má alla grein Aftonbladet HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert