Hallar á KA/Þór í samstarfinu – „Erum með KA-hjarta“

Martha Hermannsdóttir í búningi KA/Þórs.
Martha Hermannsdóttir í búningi KA/Þórs. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Við sjáum ekki fram á miklar breytingar, þó að við heitum bara KA,“ sagði Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs í handknattleik, í samtali við mbl.is um þær fréttir að samningur KA og Þórs um samstarf félaganna í kvennaflokki verði ekki endurnýjaður.

Sjá frétt mbl.is: KA slít­ur sam­starfi við Þór

Það er óhætt að segja að málið hafi vakið gríðarlega athygli á Akureyri og hefur umræðan að mestu skapast um knattspyrnulið Þórs/KA. Knatt­spyrnulið Þórs/​KA hef­ur verið rekið af Þór og hand­knatt­leikslið KA/Þ​órs af KA. En hvað finnst handboltaliðinu um fréttirnar?

„Ég held að það sé ein úr Þór hjá okkur, en annars eru þetta allt stelpur sem hafa alist upp í KA. Við erum ekki eins brjálaðar og fótboltastelpurnar, okkur finnst við alveg eins bara vera að spila fyrir KA,“ sagði Martha og nefnir að handboltaliði KA/Þórs hafi fundist halla nokkuð á sig í þessu samstarfi.

Þór/KA, rekið af Þór, hefur spilað í rauðum og hvítum búningum Þórs á meðan handboltalið KA/Þórs, rekið af KA, hefur leikið í búningum sem eru hlutlausir að lit.

„Auðvitað væri voða gott að þetta samstarf myndi vera í góðu og allt myndi ganga vel. En þá fyndist mér að Þór/KA þyrfti líka að spila í svörtum búningum eins og við gerum. Mér finnst þetta samstarf hafa pínu hallað á okkur, þar sem þær hafa bara spilað í Þórsbúningum. Við höfum til dæmis aldrei skilið það,“ sagði Martha.

Martha Hermannsdóttir saknar þess að spila í gulum búningi KA.
Martha Hermannsdóttir saknar þess að spila í gulum búningi KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Saknar þess að spila í gulu og bláu

Í fótboltanum reka félögin bæði yngri flokka, áður en sameinast er undir merkjum Þórs/KA í 2. flokki. Kvennamegin í handboltanum er það hins vegar svo að sameiningin nær niður alla yngri flokka og eru langflestir iðkendur hvort sem er frá KA.

Martha segir að Þór hafi aldrei teflt fram liði í meistaraflokki kvenna í handbolta, og því sé skiljanlegt að slíta samstarfinu.

„Ég hef ekkert neikvætt um þetta að segja, þannig. Auðvitað væri gott ef þetta samstarf myndi ganga vel, en handboltinn er bara í KA og við höfum rekið þetta alveg og séð um allt hvað varðar þjálfara yngri flokka og slíkt,“ sagði Martha.

Hún viðurkennir að hún sakni þess að spila í búningi KA, þeim gula og bláa.

„Við erum með KA-hjarta og við viljum bara spila aftur í gula búningnum, það er eiginlega svoleiðis. Fyrst þetta hefur verið einhliða KA-megin í handboltanum og Þórsmegin í fótboltanum þá er kannski alveg eins gott að skipta þessu bara,“ sagði Martha Hermannsdóttir við mbl.is.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

KA slít­ur sam­starfi við Þór

Undr­ast vinnu­brögð KA: „Kom eins og sleggja“

Vill ekki þjálfa leng­ur hjá KA - „Særði mig mikið“

Erfið ákvörðun fyr­ir alla

„Ekki viss um að ég verði KA stelpa áfram“

Yfirlýsing KA ætti ekki að hafa áhrif á Akureyri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert