„Ástrós var frábær í markinu“

Kristín Guðmundsdóttir var markahæst með 9 mörk.
Kristín Guðmundsdóttir var markahæst með 9 mörk. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Kristín Guðmundsdóttir var markahæst Valskvenna eftir sigurinn gegn Haukum í kvöld í Olís-deild kvenna í handknattleik. Lokatölur urðu 25:17 en Kristín segist ekki hafa búist við svona þægilegum leik.

„Nei alls ekki. Haukar eru með frábært lið í bæði sókn og vörn en það er bara langt síðan ég hef séð Valsliðið spila svona góðan leik. Við höfum stundum verið með annaðhvort vörn eða sókn í lagi en nú voru allir þessir þættir í lagi.“

„Haukar hafa hættulegar skyttur eins og Ramune Pekarskyte og það eru nú ekki margar í deildinni sem eru að verja skot frá henni í hávörn. Ég held að Gerður [Arinbjarnar] hafi tekið einhver þrjú skot í vörninni í þessum leik og það segir ýmislegt.“ 

Kristín segir Olísdeildina hnífjafna og skemmtilega í vetur.

„Deildin er náttúrulega mjög jöfn og þetta var fjögurra stiga leikur. Það er bara hrikalega erfið barátta fram undan að halda sér í efstu fjórum. Nú er Anna Úrsúla [Guðmundsdóttir] byrjuð á fullu með Gróttu, ÍBV er komið með fleiri leikmenn inn í liðið og þannig mætti lengi telja. Það er bara að duga eða drepast í hverjum einasta leik.“

Markvörðurinn Ástrós Bender lokaði markinu á löngum köflum í leiknum og Kristín sparaði ekki hrósið.

„Ástrós var frábær í markinu. Hún tók þau skot sem hún átti að taka og svo helling umfram það, þar á meðal dauðafæri og vítaköst. Ég vona bara að vörnin hafi verið að hjálpa henni og þess vegna hafi hún náð að spila svona vel.“

Sigurinn lyfti Val upp fyrir Hauka í þriðja sæti deildarinnar en telur Kristín að það sé of langt í tvö efstu liðin (Fram og Stjörnuna) til að gera raunhæfa kröfu um að lyfta sér ofar?

„Já, ég held það. Ég held að það þýði lítið að vera eitthvað að stefna á efsta sætið úr þessu en það yrði auðvitað bara ánægjulegur bónus ef það tækist,“ sagði hin síunga Kristín Guðmundsdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert