Fer aðeins með átta leikmenn í Evrópuleik

Hildigunnur Einarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hildigunnur Einarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handknattleik, og stöllur hennar hjá þýska liðinu Leipzig eru í gríðarlegum meiðslavandræðum fyrir fyrri viðureign sína gegn rússneska liðinu Kuban Krasnodar í EHF-bikarnum.

Fyrri viðureignin fer fram í Rússlandi og fór Leipzig aðeins með átta leikmenn í ferðina. Sex leikmenn eru meiddir, þær Karolina Kudlacz-Gloc, Saskia Lang, Anne Hubinger, Shenia Minevskaja, Franziska Mietzner og Katja Kramarczyk. Þá eru tveir leikmenn til viðbótar, Emely Theilig og Julia Weise með flensu og fyrirliðinn Karolina Kuldacz-Gloc er ófrísk.

„Þetta er slæm staða,“ sagði þjálfarinn Norman Rentsch, og sagði að ekki hefði verið möguleiki að taka yngri leikmenn með í ferðina. Það hafi þurft að útbúa vegabréfsáritanir með fyrirvara og ekki gafst tími í það.

„Við báðum um að fresta leiknum, en það var ekki hægt að finna nýja dagsetningu. Við verðum bara að gera okkar besta og vonast til þess að allir leikmennirnir komi heilir aftur til Þýskalands,“ sagði Rentsch.

Leipzig á þar að auki næsta leik í þýsku 1. deildinni þann 24. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert