Löwen í annað sætið með útisigri

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Löwen í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Löwen í kvöld. Ljósmynd/Foto Olimpik

Rhein-Neckar Löwen komst á ný í annað sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld með því að sigra Hannover-Burgdorf á útivelli, 30:26.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 4 mörk fyrir Löwen og Alexander Petersson eitt en Rúnar Kárason skoraði þrjú mörk fyrir Burgdorf.

Flensburg vann Gummersbach á útivelli fyrr í kvöld, 28:23, og er með 37 stig á toppnum. Löwen er með 34 stig, Kiel 32 og Füchse Berlín sem tapaði óvænt fyrir botnliði Bergischer á heimavelli, er með 30 stig í fjórða sætinu.

Magdeburg, sem vann Göppingen 33:32 í kvöld, er með 26 stig í fimmta sætinu en síðan koma Hannover-Burgdorf og Wetzlar með 22 stig hvort.

Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í Balingen biðu lægri hlut fyrir Melsungen á útivelli, 30:22, og eru í 15. sæti af 18 liðum, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert