Vorum alltaf skrefi á undan

Valsmaðurinn Vignir Stefánsson skoraði sex mörk í Mosfellsbæ í kvöld.
Valsmaðurinn Vignir Stefánsson skoraði sex mörk í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum skrefinu á undan Aftureldingarmönnum nær alla leikinn. Það kom stuttur kafli þegar um tíu mínútur voru eftir þar sem við misstum aðeins dampinn en náðum okkur af stað aftur og unnum sanngjarnan sigur,“ sagði Vignir Stefánsson, leikmaður Vals, eftir að hann og samherjar unnu Aftureldingu með fjögurra marka mun, 29:25, í upphafsleik 19. umferðar Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.

„Varnarleikurinn var góður hjá okkur lengst af. Hann datt aðeins niður þegar á síðari hálfleik leið en okkur tókst að stilla aftur saman strengina og halda sóknarleiknum gangandi einnig. Þannig tryggðum við okkur sigurinn,“ sagði Vignir sem var einn af þremur markahæstu leikmönnum Vals í leiknum með sex mörk.

Mosfellingar áttu í mestu erfiðleikum með frábæran varnarleik Valsliðsins lengst af leiksins. „Við lékum vörnina lengst af virkilega vel,“ sagði Vignir.

Liðin mættust síðast fyrir rúmri viku í deildinni og þá misstu Valsmenn niður gott forskot á lokakaflanum með þeim afleiðingum að Afturelding náði jafntefli. Í leiknum í kvöld tókst Aftureldingu að skora fjögur mörk í röð á lokakafla leiksins og minnka muninn í eitt mark, 25:24. „Við vorum minnugir þess sem gerðist í síðasta leik okkar við Aftureldingu og vorum staðráðnir í að láta það ekki koma fyrir aftur að þeir næðu í annað stigið á síðustu mínútunum. Í einu af leikhléunum minntum við hver annan á það,“ sagði Vignir.

Valsmenn halda snemma í fyrramálið til Svartfjallalands þar sem þeir mæta Partizan 1949 tvisvar sinnum í 16-liða úrslitum Áskorendakeppninnar um næstu helgi. Vignir sagði sigurinn í kvöld vera gott veganesti fyrir viðureignirnar í Svartfjallalandi. „Markmiðið var að vinna leikinn við Aftureldingu og fara þar með út á jákvæðum nótum. Sigurinn gefur okkur byr í seglin. Það er alltaf skemmtilegra þegar vel gengur og vonandi skilar það sér inn í leikina í Svartfjallalandi um helgina,“ sagði Vignir Stefánsson, hornamaður Vals, í samtali við mbl.is eftir sigurinn að Varmá í kvöld.

Vignir Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Valsmenn í Mosfellsbæ í …
Vignir Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Valsmenn í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert