„Ég er hundsvekktur“

Andri Snær Stefánsson, leikmaður Akureyrar.
Andri Snær Stefánsson, leikmaður Akureyrar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er hundsvekktur með tapið og þar á ofan lékum við illa,“ sagði Andri Snær Stefánsson, leikmaður Akureyrar, eftir tveggja marka tap liðsins fyrir Gróttu, 25:23, í Olís-deild karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld.

Akureyringar eru því áfram á botninum en Grótta komst tveimur stigum fram fyrir Fram og Akureyri og upp að hlið Stjörnunnar með stigunum tveimur.  „Við töpuðum boltanum allt of oft á einfaldan hátt sem færði Gróttuliðinu auðveld mörk. Gróttuliðið var einfaldlega betra liðið þegar leikurinn er gerður upp, því miður fyrir okkur. Þeir áttu sigurinn skilið,“ sagði Andri Snær sem skoraði fimm af mörkum Akureyrarliðsins að þessu sinni.

„Upphafskafli síðari hálfleiks var slæmur þar sem við lentum strax fjórum mörkum undir eftir fimm mínútur. Við áttum örlítinn möguleika á að komast inn í leikinn undir lokin en því miður tókst okkur ekki að nýta tækifærið sem gafst. Það getur verið stutt á mill.

Þegar upp er staðið þá vorum við bara alls ekki nógu beittir. Alltof margir þættir leiksins voru ekki í lagi hjá okkur. Við vorum skrefinu á eftir allan leikinn og það svíður í svona uppgjörsleik,“ sagði Andri Snær sem alls ekki er á þeim buxunum að leggja árar í bát þótt staðan sé erfið.

„Við verðum að taka stigin í komandi leikjum. Næst mætum við Aftureldingu á heimavelli eftir bikarhelgina. Það er ekkert sem heitir. Við verðum að vinna alla heimaleiki sem eftir eru í þeirri baráttu sem við erum í,“ sagði Andri Snær Stefánsson, leikmaður Akureyrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert