Haukar í toppsætið

Adam Haukur Baumruk og félagar í Haukum mæta Selfyssingum í …
Adam Haukur Baumruk og félagar í Haukum mæta Selfyssingum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Hauka eru komnir í toppsæti Olís-deildar karla í handbolta eftir öruggan sigur gegn Selfossi, 35:25. Haukar byrjuðu illa í deildinni í haust en 11 sigrar í 12 leikjum skila Ásvellingum efsta sætinu að loknum 19 umferðum.

Haukar voru sterkari nánast frá fyrstu mínútu. Selfyssingar komust reyndar einu marki yfir í stöðunni 4:3 en þá skoruðu Haukar átta mörk í röð og náðu heljartökum á leiknum. Gestirnir ætluðu ekki að láta kafsigla sig og náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Haukar náðu þó að auka forskot sitt og leiddu með með fimm marka mun að loknum fyrri hálfleik, 15:10.

Seinni hálfleikur var á svipuðum nótum og sá fyrri. Haukar voru áfram betri og það var ekki að hjálpa málstað Selfyssinga að Guðni Ingvarsson fékk beint rautt spjald eftir aðeins fimm mínútna leik í seinni hálfleiknum.

Guðni fór í andlitið á Daníel Þór Ingasyni, sem þurfti að fara af velli í kjölfarið og kom ekki meira við sögu í leiknum. Haukar mega betur við að missa menn úr liðinu en Selfyssingar og meistararnir bættu í rólegheitum við forskotið allt til leiksloka.

Adam Haukur Baumruk skoraði 9 mörk fyrir Hauka en markahæstur Selfyssinga var Elvar Örn Jónsson með 6 mörk.

Haukar 35:25 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið Mjög öruggt hjá meisturunum. Takk fyrir mig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert