Bætum okkur jafnt og þétt

Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, átti fyrirtaksleik í dag gegn Fram.
Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, átti fyrirtaksleik í dag gegn Fram. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við höfum bætt okkur jafnt og þétt í hverjum leik eftir að keppni hófst eftir HM-hléið. Það voru góðir kaflar hjá okkur í dag sem við getum byggt ofan á,“ sagði Stephen Nielsen, markvörður ÍBV, sem lék afar vel með liðinu þegar það lagði Fram, 30:25, í Olís-deild karla í handknattleik í Framhúsinu í dag.

„Vörnin var frábær á löngum köflum í dag og eins voru margir góðir kaflar í sóknarleiknum. Við höfum verið að fá menn til baka úr meiðslum eða annarri fjarveru. Ég er einn af þeim en ég lék í Frakklandi fram að áramótum. Af þessu leiðir að við höfum verið að púsla saman leik okkar. Það getur tekið sinn tíma en góðu köflunum er alltaf að fjölga auk þess sem stemningin er góð í hópnum. Við ætlum að vinna okkur smátt og smátt saman með það að markmiði að vera á toppnum í úrslitakeppninni í apríl og í maí,“ sagði Stephen.

„Við viljum gjarnan komst upp í hóp fjögurra efstu liða áður en úrslitakeppnin hefst svo við verðum að minnst kosti með heimleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Ég er bjartsýnn á að okkur takist að ná því markmiði og toppa síðan í vor,“ sagði Stephen Nielsen, markvörður ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert