Vorum í miklum erfiðleikum

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum í erfiðleikum gegn frábæru liði ÍBV sem skoraði nánast þegar það vildi,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari karlaliðs Fram, eftir fimm marka tap fyrir ÍBV, 30:25, í lokaleik 19. umferðar Olís-deildar karla í handknattleik í Safamýri í dag.

„Eyjamenn áttu frábæran leik. Skytturnar þeirra voru óstöðvandi og mjög erfitt að verjast þeim,“ sagði Guðmundur Helgi enn fremur.

„Sóknarleikurinn var allt í lagi hjá okkur. Við skoruðum 25 mörk þrátt fyrir að Stephen Nielsen ætti frábæran leik í marki ÍBV.  Hann lokaði á okkur á löngum köflum,“ sagði Guðmundur en lið hans er í næstneðsta sæti deildarinnar og ljóst að róðurinn verður þungur á lokakafla deildarkeppninnar.

Eins og fleiri sem að leiknum komu var Guðmundur helgi óánægður með dómara leiksins, Þorleif Árna Björnsson og Ramunas Mikalonis. „Ég hef ekki lagt í vana minn að gagnrýna dómara eftir leiki en þetta var þeirra slakasti leikur sem ég hef séð, hreinlega í einu og öllu. Vonandi sjá þeir hvað var í gangi. Dómararnir verða að skoða sína leiki eins og við, leikmenn og þjálfarar. Vonandi fara dómararnir vel yfir upptöku af þessum leik,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert