„Sem betur fer dreif ég ekki“

Valsmenn fagna eftir að hafa slegið Partizan út í Svartfjallalandi …
Valsmenn fagna eftir að hafa slegið Partizan út í Svartfjallalandi í gær. Eins og sjá má voru stuðningsmenn Partizan ekkert sérstaklega ánægðir. Ljósmynd/Baldur Þorgilsson

„Við erum í skýjunum yfir að hafa komist áfram,“ sagði Hlynur Morthens, markvörður Vals, eftir að liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í handbolta með dramatískum hætti. Valsmenn léku báða leiki sína við Partizan 1949 á útivelli í Tivat í Svartfjallalandi um helgina og enduðu þeir báðir með jafntefli. Fyrri leikurinn var skráður sem heimaleikur Vals og fór 21:21, en sá seinni fór 24:24 og komust Valsmenn því áfram á fleiri „útivallarmörkum“.

Það gekk mikið á á lokakafla einvígisins í gær. Orri Freyr Gíslason jafnaði metin í 21:21 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir, með því að ná frákasti eftir varið skot, rétt á undan markverði Partizan. Sá fékk tveggja mínútna brottvísun. Engu að síður komust heimamenn í 23:21 og í sókn til þess að auka muninn í þrjú mörk. Þess í stað varði Hlynur skot og kastaði boltanum yfir allan völlinn í autt mark Partizan. Boltinn fór ekki marga sentimetra frá vinstri markstönginni, en markið reyndist afar dýrmætt:

„Sem betur fer dreif ég ekki yfir allan völlinn svo boltinn lenti á gólfinu og snerist aðeins og fór þá inn. Það var gott,“ sagði Hlynur léttur í bragði. Sveinn Aron Sveinsson jafnaði metin svo í næstu sókn Vals og Anton Rúnarsson kom Valsmönnum yfir þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka. Þar með var nánast ljóst að Valur færi áfram í keppninni, því jafntefli myndi duga, eins og raunin varð.

Nánar er rætt við Hlyn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert